Heitar umræður sköpuðust enn á ný þegar tekist var á um deiluskipulag Stekkjarbakka og fyrirhugaða atvinnustarfsemi þar undir liðnum umræða um Elliðaárdalinn á borgarstjórnarfundi í dag. Skorað var á meirihlutann að hverfa frá heimild til að reisa þar gróðurhvelfingar og heimila almenna atkvæðagreiðslu borgarbúa um skipulagið. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, ítrekaði að Stekkjarbakki tilheyri ekki Elliðaárdalnum, svæðið væri á jaðrinum og væri jafnframt lítið notað og félli því ekki undir skipulag um Elliðaárdal.
Oddviti Sjálfstæðisflokksins, Eyþór Laxdal Arnalds, lagði hart að meirihlutanum að standa vörð um grænu svæðin í borginni. Með uppbyggingu í Stekkjarbakka væri verið að ganga á græn svæði og gæði dalsins fyrir borgarbúa. „Elliðaárdalurinn er stoltið okkar. Við þurfum að standa vörð um hann. Það er lágmarki að leyfa íbúum að kjósa um hann,“ sagði Eyþór.
Hann benti á að uppbygging á Stekkjarbakka og fyrirhuguð gróðurhvelfing mætti mikilli andstöðu og vísaði í undirskriftarlista íbúa gegn uppbyggingu þar. Hann gangrýndi fyrirkomulagið um rafræna söfnun undirskrifa væri flókin og hún auðveldi ekki fólki að tjá skoðun sína á málinu. Til þess að knýja fram íbúakosningu um málið þarf rúmar 18 þúsund undirskriftir. Ef til íbúakosningu kæmi væri ekki hægt að fella nýja skipulag um Stekkjarbakka heldur hægt að kalla á endurskoðun. Þess má geta að í nóvember síðastliðnum var tillaga minnihluta borgarstjórnar um almenna atkvæðagreiðslu borgarbúa um deiliskipulag Stekkjarbakka Þ73 felld.
Eyþór vísaði jafnframt til þess að Stekkjarbakki hafi tilheyrt Elliðaárdalnum fyrir nokkrum árum. Máli sínu til stuðnings vísaði hann til tveggja starfshópa og skýrslna þeirra sem birtar voru fyrir nokkrum árum.
Dagur vísaði þessu alfarið á bug. Hann sagði „merkilegt að vera í umræðu um Elliðaárdalinn sem væri látinn snúast um Stekkjabakka sem er í grennd við Elliðaárdalinn en telst ekki hluti af honum samkvæmt afmörkun aðalskipulags og samþykkt borgarstjórnar,“ sagði Dagur. Hann rakti ennfremur forsöguna um afmörkun dalsins sem væri býsna löng og það var álitamál. Hópur sérfræðinga hefði komið að málum meðal annars í umhverfis- og skipulagsmálum við afmörkun dalsins.
Hann boðaði jafnframt að á fimmtudaginn yrði sett auglýsing um skipulag alls Elliðaárdals. Innan þess er kveðið á um að auka friðun á Elliðaárdalnum. Hún fælist í hverfisvernd „sem ég kalla borgarfriðun. Það er hástig friðunar sem sveitarstjórn ræður yfir. Ég er á því að þetta verði eitt af betri verkum borgarstjórnar á þessu tímabili,“ sagði Dagur.
Dagur lýsti því að þegar ríkið friðlýsti svæði fylgdu ekki fjármunir en þessu væri ólíkt farið þegar borgin gerði slíkt. „Þegar við gerum þetta þá gerum við þetta með sóma,“ útskýrði hann ennfremur og ítrekaði að hverfisverndunin kæmi Elliðaárdalnum til góða.
Pwel Bartozek fulltrúi Viðreisnar í borgarstjórnar taldi að uppbygging á Stekkjarbakka væri spennandi verkefni sem væri öllum þeim sem legðu leið sína í dalinn til ánægju.
Eyþór benti á að áform um uppbyggingu á svæðinu væru óljós, byggingar yrðu mögulega stærri en upphaflega var lagt upp með og margt væri óljóst. Hildur Björnsdóttir fulltrúi Sjálfstæðisflokks velti þessum spruningum einnig upp og spurði hvers vegna lóðarhafi hafi fengið hana án auglýsingar. Hún furðaði sig einnig á að Píratar hafi hafnað hugmynd um íbúakosningu fyrir skipulag á Stekkjarbakka. „Píratar er flokkur sem hverfist nær eingöngu um íbúalýðræði,“ sagði hún.
Dóra Björt Guðjónsdóttir fulltrúi Pírata var ekki sátt við þessi ummæli og sakaði Sjálfstæðisflokkinn að dreifa ósannindum eins og „faraldri“. Flokkurinn væri ekkert annað en „falskur vinur sem snýst ekki um annað en sjálfan sig.“ Hún sagði vinnubrögð hans ennfremur ólýðræðisleg. Hún sagðist vera sátt við að Píratar hafi neitað að vinna með Sjálfstæðsflokknum því hann „kann ekki að koma fram af heiðarleika.“
Hún sagði flokknum „alveg sama um staðreyndir“ og líkti flokknum við Trump sem væri „mættur í fjölriti einu sinni enn“.
Meirihluti borgarstjórnar lagði fram bókun um Elliðaárdalinn. Þar segir meðal annars að hverfisvernd muni festir hann í sessi sem borgargarðs.