„Ég held að borgarstjóri sé sammála mér um það að fjárveitingarvaldið á þinginu og ríkisstjórnin geti alveg örugglega búið um hnútana á mörgum sviðum þannig að fólk eigi auðveldara með að lifa góðu lífi,“ segir Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sem gerði stöðuna í kjaramálum að umtalsefni sínu í fyrirspurn til Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra á Alþingi í gær.
Í fyrirspurn Loga beindist hörð gagnrýni að ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og formaðurinn spurði hvernig ríkistjórnin ætlaði að axla sinn hluta ábyrgðar á þeirri stöðu sem nú væri uppi í kjaramálum, en 1.850 félagsmenn í Eflingu sem starfa hjá Reykjavíkurborg eru sem kunnugt er í ótímabundnu verkfalli og um átján þúsund opinberir starfsmenn í BSRB greiða í vikunni atkvæði um verkfallsaðgerðir.
Í þingræðu sinni talaði Logi með nokkuð svipuðum hætti og talsmenn stéttarfélagsins Eflingar hafa gert í kjarabaráttu sinni gegn Reykjavíkurborg, en Logi sagði að allir þingmenn vissu að það væri ómögulegt eða „í besta falli erfitt“ að draga fram lífið á lægstu laununum á Íslandi, verðmætamat einstakra stétta væri í hróplegu ósamræmi við mikilvægi þeirra og að þau sem önnuðust börn og huguðu að öldruðum, fötluðum og sjúkum fengju „langtum lægri laun en réttlætiskennd flestra landsmanna segir til um.“
„Gildismat samfélagsins hefur vissulega breyst frá því að konur sinntu umönnunarstörfum fyrir engan pening en við verðum hins vegar að stíga næstu skref og minnka kerfisbundinn launamun kynjanna, ekki bara innan stétta heldur einnig þvert á stéttir,“ sagði Logi, sem segir aðspurður að það skjóti síður en svo skökku við að hann tali með þessum hætti þegar Reykjavíkurborg, undir stjórn Dags B. Eggertssonar borgarstjóra, samflokksmanns Loga, er að reyna að ná samningum við stóra láglaunahópa um hækkanir sem væru í takt við lífskjarasamningana.
„Við auðvitað spjöllum saman [ég og Dagur] og þeir samningar eru í gangi og ég vona svo sannarlega að það greiðist úr þeim, en hlutverk okkar í þinginu er að liðka fyrir kjarasamningum með almennum aðgerðum til þess að búa fólki öruggara og betra líf, því laun skipta miklu máli en það skiptir líka máli hvernig aðbúnaður fólks er og mér finnst ríkisstjórnin ekki geta verið stikkfrí í þeirri stöðu sem er núna uppi,“ segir Logi við mbl.is.
Logi segir að ræðu hans hafi ekki verið sérstaklega beint að lífskjarasamningunum sem slíkum. „Ég hef alla tíð talað um það að þó að það hafi verið mjög jákvætt af verkalýðshreyfingunni að ná þessari lendingu síðasta vor og draga ríkisstjórnina að landi og knýja fram ágætis breytingar, meðal annars skattkerfisbreytingar, þá fannst mér ekki nógu langt gengið og það þýðir ekki ekki fyrir ráðherra í ríkisstjórn að guma sig af lífskjarasamningum og kalla þá það þegar þeir ná ekki til nema ákveðins hluta samfélagsins. Þessir samningar snúa að litlu leyti að öryrkjum, að öldruðum, að námsmönnum og það er enn ósamið við risastóra hópa.
Mitt innlegg í gær var fyrst og fremst að fá að vita, nú þegar stefnir í nýja fjármálaáætlun hjá ríkisstjórninni – hvort hún ætli að bregðast við því ástandi sem er alvarlegt og verður enn alvarlegra ef 20.000 félagsmenn BSRB fara í verkfall, hvort að ríkisstjórnin hafi hugsað sér að hlusta eitthvað á það sem við erum búin að tala um, að það þurfi í róttækari jöfnunaraðgerðir í skattkerfinu, það þurfi að bæta í millifærslukerfi barna og húsnæðisbóta og það þurfi miklu stærri skref á húsnæðismarkaði,“ segir Logi.
„Barnabætur eru orðnar fátækrastyrkur en ekki jöfnunartæki, vaxtabætur eru orðnar sagnfræði og húsnæðisstuðningur ríkisins, eftir að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur eyðilögðu félagslega húsnæðiskerfið, er auðvitað bara mjög brýnt baráttumál. Ég get ekki ímyndað mér annað en að borgarstjóri sé bara 100% sammála mér um það að aðbúnaður almennings fólks í landinu gæti verið betri,“ bætir hann við.