„Öll eigum við rétt á mannhelgi og vernd“

Maní ásamt móður sinni.
Maní ásamt móður sinni. mbl.is/Íris

Biskup Íslands og vígslubiskuparnir á Hólum og í Skálholti hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þeir hvetja dómsmálaráðherra til að koma í veg fyrir að Maní Shahidi, 17 ára transpilti frá Íran, og fjölskyldu hans, verði vísað úr landi. Hann dvelur nú á barna- og unglingageðdeild Landspítalans vegna slæmrar andlegrar heilsu og hafa læknar þar lagst gegn því að honum verði vísað úr landi. Biskuparnir biðja um að fjölskyldan fái varanlegt dvalarleyfi hér á landi.

„Fjölskyldan er kristinnar trúar og hefur sótt þjónustu kirkjunnar í Breiðholtskirkju fyrir innflytjendur og hælisleitendur, sem sr. Toshiki Toma prestur innflytjenda sinnir. Vitað er að pilturinn, sem er barn að aldri, er ekki öruggur í fæðingarlandi sínu sökum kyngervi hans,“ segir meðal annars í yfirlýsingunni.

Segjast biskuparnir hafa áhyggjur af því að fjölskyldan geti ekki lifað öruggu lífi verði þau send á brott, en til stendur að senda fjölskylduna til Portúgal um leið og Maní losnar af BUGL.

„Kristin trú hvetur okkur til að standa vörð um mannlegt líf og hvetur einnig til gestrisni og umhyggju fyrir öllum mönnum. Guð elskar okkur eins og við erum - öll eigum við rétt á mannhelgi og vernd þegar að henni er sótt,“ segja biskuparnir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert