Andlát: Hallgrímur Sveinsson

Hallgrímur Sveinsson.
Hallgrímur Sveinsson.

Hallgrímur Sveinsson, bókaútgefandi og fv. skólastjóri á Þingeyri og staðarhaldari á Hrafnseyri, varð bráðkvaddur á heimili sínu sunnudaginn 16. febrúar. Hann var á áttugasta aldursári.

Hallgrímur var fæddur í Reykjavík 28. júní 1940. Foreldrar hans voru Sveinn Jónsson húsasmiður og Hanna Kristín Guðlaugsdóttir húsfreyja.

Hallgrímur lauk kennaraprófi vorið 1961 og kenndi fyrst við heimavistarskólann á Jaðri við Reykjavík og var síðan forstöðumaður vistheimilisins í Breiðuvík í tvö ár. Hann var kennari í Auðkúluhreppi og síðan í barna- og unglingaskólanum á Þingeyri og skólastjóri þar um árabil. Þau hjónin voru bændur og staðarhaldarar á Hrafnseyri við Arnarfjörð, fæðingarstað Jóns Sigurðssonar forseta, í rúm 40 ár og sáu um vörslu og umhirðu staðarins fyrir hönd Hrafnseyrarnefndar.

Hallgrímur gaf út fjölda bóka í nafni Vestfirska forlagsins, ekki síst með sögum og fróðleik af Vestfjörðum. Hans eigin höfundarverk voru þar á meðal. Bókatitlarnir voru orðnir a.m.k. 300 á rúmum 25 árum. Vann Hallgrímur að þessu verkefni og áhugamáli til dánardags. Hann ritaði einnig greinar í blöð, m.a. Morgunblaðið, og á Þingeyrarvefinn, síðustu árin gjarnan í samvinnu við félaga sína í „Þingeyrarakademíunni“.

Hallgrímur kenndi handknattleik í Reykjavík og var virkur í félagsmálum fyrir vestan. Sat meðal annars í hreppsnefnd Auðkúluhrepps og var oddviti, hreppstjóri og sýslunefndarmaður, sat í stjórn Kaupfélags Dýrfirðinga og sóknarnefnd.

Eftirlifandi eiginkona Hallgríms er Guðrún Steinþórsdóttir frá Brekku í Dýrafirði. Hún var með sauðfjárbúskap á Brekku í mörg ár og titlaði Hallgrímur sig þá „léttadreng“ á Brekku.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka