Hallur Már -
„Maní á heima hér!“ skrifaði ungur maður undir styttunni af Jóni Sigurðssyni á Austurvelli í hádeginu þar sem hópur fólks kom saman til að sýna íranska transdrengnum Maní Shahidi stuðning en mál hans hefur farið hátt í þjóðfélaginu að undanförnu.
Það voru samtökin No borders sem stóðu fyrir samkomunni og krítuðu gestir skilaboð til stjórnvalda við Austurvöll og Alþingishúsið. „Þau [Maní og fjölskylda] eiga það skilið að málið þeirra sé unnið eins og á að vinna mál,“ segir Katrín Alda Ámundadóttir, félagi í samtökunum, en lögmaður fjölskyldunnar hefur gert athugasemdir við málsmeðferð Útlendingastofnunar í málinu. Þar hafi verið gerð mistök. Útlendingastofnun hefur þó hafnað því.
„Það þarf ekki reglugerðarbreytingu hér eða lagabreytingu. Það er hægt að líta á aðstæður þessa barns og segja: hér er drengur í sérstaklega viðkvæmri stöðu, okkur ber skylda til að afgreiða mál hans. Skoða innihald og taka til efnismeðferðar og veita honum vernd. Því það er það sem hann er að óska eftir,“ segir þingkonan Helga Vala Helgadóttir sem var á Austurvelli í dag.
Maní sjálfur var ekki á staðnum né fjölskylda hans en hann hefur dvalið á barna- og unglingageðdeild Landspítalans vegna slæmrar andlegrar heilsu síðan á sunnudagskvöld. Læknar þar mælast gegn því að honum verði vísað úr landi.