Sala á upprunaábyrgðum grafi undan ímynd Íslands

Álit Samtaka iðnaðarins er að kerfið eigi ekki við hérlendis.
Álit Samtaka iðnaðarins er að kerfið eigi ekki við hérlendis. mbl.is/​Hari

Samtök iðnaðarins telja að sala hérlendra raforkufyrirtækja á svokölluðum upprunaábyrgðum raforku orki verulega tvímælis og grafi undan ímynd Íslands sem lands endurnýjanlegrar orku.

Upprunaábyrgðir fela í sér staðfestingu á að raforka hafi verið framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum. Kerfinu var komið á til að örva orkuskipti í raforkuframleiðslu innan ESB sem skref í aðgerðum gegn loftslagsbreytingum og til að draga úr notkun á jarðefnaeldsneyti, að því er kemur fram í tilkynningu Samtaka iðnaðarins.

Þar segir að með sölu á upprunaábyrgðum sé verið að fórna mun meiri hagsmunum fyrir minni. „Sala upprunaábyrgða inn á Evrópumarkað skerðir ímynd Íslands sem lands endurnýjanlegra orkugjafa og ímynd íslensks atvinnulífs. Íslensk stjórnvöld hafa um áratuga skeið markaðssett Ísland sem land hreinna orkugjafa, og gera enn á ýmsum vettvangi, þrátt fyrir að kerfi upprunaábyrgða kunni að standa í vegi fyrir slíkum fullyrðingum,“ segir í tilkynningunni.

Bætt er við að tekjur íslenskra raforkufyrirtækja af sölu upprunaábyrgða séu um einn milljarður króna á ári, sem sé ekki há fjárhæð í stóra samhenginu og í samanburði við hreinleikaímynd Íslands í tengslum við raforku. „Sala upprunaábyrgða hefur það í för með sér að raforkubókhald Íslands breytist þannig að hér mætti ætla að uppruni raforku sé 55% jarðefnaeldsneyti, 34% kjarnorka og einungis 11% endurnýjanleg orka.“

Einnig kemur fram í tilkynningunni að það sé álit Samtaka iðnaðarins að kerfið eigi ekki við hérlendis þar sem megintilgangur þess sé að stuðla að orkuskiptum í raforkuframleiðslu.

Ítrekað er að staða Íslands í orkumálum sé gjörólík flestum ríkjum sem eru aðilar að EES-samningnum því hér sé hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa mun hærra en gengur og gerist.

Samtök iðnaðarins telja einnig að kerfi upprunaábyrgða hafi skapað lagalega óvissu, s.s. hvort íslenskum raforkufyrirtækjum sé heimilt að starfa á þessum markaði, og að þeirri óvissu þurfi að eyða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert