Lægðin títtnefnda ekki úr sögunni

Kort/Veðurstofa Íslands

Í gærkvöldi kom djúp lægð (945 hPa) upp að suðausturströndinni og olli hríðarveðri á landinu sem var verst allra syðst og á Suðausturlandi.

„Þessi sama lægð fikrar sig nú austur fyrir land og stjórnar veðrinu hjá okkur áfram í dag. Áttin verður norðlæg og allhvass vindur algengur, en stormur í norðvesturfjórðungi landsins fram yfir hádegi. Með norðanáttinni fylgir snjókoma norðan til, en sunnanlands rofar til ef að líkum lætur. Hiti nálægt frostmarki.

Á morgun er lægðin títtnefnda ekki enn úr sögunni, hún verður þá stödd á djúpunum austnorðaustur af landinu og veldur éljagangi norðan til. Litla systir lægðarinnar nálgast okkur hins vegar óðfluga úr suðvestri á morgun og úrkomubakki frá henni er væntanlegur inn á sunnanvert landið með slyddu eða snjókomu. Vesturland virðist ætla að sleppa við úrkomu að mestu. Allur þessi lágþrýstingur viðheldur stífum vindi um mestallt land á morgun.

Það lítur því út fyrir að veðrið ætli áfram að valda ferðalöngum einhverjum töfum og vandræðum, sér í lagi þeim sem ætla sér yfir fjallvegi,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Vetrarfærð er í öllum landshlutum og vegir víða ófærir eða lokaðir eftir nóttina, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni. Þungfært er á Bröttubrekku og þæfingur í Svínadal. En er verið að kanna ástand á öðrum leiðum á Vesturlandi.

Óvissustig er í gildi vegna snjóflóðahættu á Flateyrarvegi og Súðavíkurhlíð.

Á Norðausturlandi er þungfært á Vatnsskarði og flughálka í Blönduhlíð. Ófært er á Siglufjarðarvegi og í Víkurskarði. Verið er að kanna ástand á flestum leiðum. Vegurinn um Þverárfjall er lokaður og eins er Öxnadalsheiðin lokuð og óvissustig á Ólafsfjarðarmúla. Ófært er á Hólasandi og hálka og snjór á flestum leiðum. Vegirnir um Möðrudalsöræfi og Vopnafjarðarheiði eru lokaðir. 

Veðurvefur mbl.is

Veðurspáin fyrir næstu daga

Norðan 13-23 m/s, hvassast um landið norðvestanvert. Snjókoma norðan til, en bjart með köflum sunnanlands. Hiti nálægt frostmarki. Dregur úr vindi síðdegis og kólnar í veðri.

Norðaustan og austan 13-18 á morgun, en hægari vindur á austanverðu landinu. Éljagangur á Vestfjörðum og Norðurlandi, en slydda eða snjókoma sunnanlands. Úrkomulítið á Austfjörðum og Vesturlandi. Hiti kringum frostmark.

Á föstudag:

Norðaustan og austan 13-20 m/s, en 8-13 á austanverðu landinu. Snjókoma eða él á Vestfjörðum og Norðurlandi, en slydda eða snjókoma sunnanlands. Hiti kringum frostmark.

Á laugardag:
Norðlæg átt 5-13 og él, en úrkomulítið á Suðurlandi. Frost víða 0 til 5 stig.

Á sunnudag:
Suðvestan 8-15 og él, en léttskýjað um landið austanvert. Frost 1 til 6 stig.

Á mánudag:
Norðaustanátt og snjókoma um tíma í flestum landshlutum. Frost 0 til 5 stig.

Á þriðjudag og miðvikudag:
Norðlæg átt og kalt í veðri. Snjókoma eða él norðan til á landinu, en úrkomulítið sunnanlands.

Gular viðvaranir víða

Gul viðvörun er við Breiðafjörð og gildir hún til klukkan 18 í dag. Norðaustan 15-23 m/s og snjókoma, en 13-18 og él nálægt hádegi á morgun. Erfið akstursskilyrði og mögulega spillist færð, sér í lagi á fjallvegum.

Á Vestfjörðum er gul viðvörun í gildi til klukkan 21. Norðaustan 15-23 m/s og snjókoma. Erfið akstursskilyrði og mögulega spillist færð, sér í lagi á fjallvegum. Norðaustan 13-18 m/s síðdegis á morgun.

Strandir og Norðurland vestra — þar er gul viðvörun í gildi til klukkan 20. Norðaustan 15-23 m/s og snjókoma. Erfið akstursskilyrði og mögulega spillist færð, einkum á fjallvegum. Norðaustan 10-18 m/s síðdegis á morgun. Norðurland eystra — gul viðvörun til klukkan 19. Norðaustan 13-20 m/s og snjókoma. Erfið akstursskilyrði og mögulega spillist færð, sérstaklega á fjallvegum.

Austfirðir — gul viðvörun í gildi en rennur út núna klukkan 8. Austan og norðaustan 13-20 m/s og talsverð eða mikil snjókoma, en síðar slydda eða rigning nærri sjávarmáli. Erfið akstursskilyrði og mögulega spillist færð, sér í lagi á fjallvegum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert