Vill tuga milljarða innspýtingu

Lilja D. Alfreðsdóttir skorar á samstarfsfólk sitt í ríkisstjórn að …
Lilja D. Alfreðsdóttir skorar á samstarfsfólk sitt í ríkisstjórn að fylkja sér að baki hugmyndum um stóraukna innviðafjárfestingu og lækkun skatta. Morgunblaðið/Kristinn Magnússon

Ríkisstjórnin verður að grípa strax til aðgerða til þess að sporna við frekari slaka í hagkerfinu. Þetta er mat Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformanns Framsóknarflokksins.

Segir hún að umfang aðgerðanna þurfi að nema að minnsta kosti 2% af landsframleiðslu eða 50 milljörðum króna.

Þetta kemur fram í viðtali í Viðskiptapúlsinum, sem nú er aðgengilegt á mbl.is og helstu hlaðvarpsveitum. Segir hún að ríkisstjórnin sé með mörg verkefni í pípunum sem hægt sé að koma á framkvæmdastig á skömmum tíma. Þannig eigi tímabundið að auka halla á rekstri ríkissjóðs og flýta framkvæmdum. Í viðtalinu tekur hún dæmi af verkefnum sem þannig eru í burðarliðnum.


Mörg verkefni koma til greina

„Ég held við séum öll sammála um að við þurfum að fara í uppbyggingu sem varðar snjóflóðavarnir. Við þurfum að bæta hafnaraðstöðu víða um land og svo þurfum við líka að styðja betur við raforkukerfið okkar, þannig að það eru mörg verkefni sem bíða og eru tilbúin. Ég nefni t.a.m. í mínu ráðuneyti, við erum á lokametrunum með að geta hafið uppbyggingu við Menntaskólann í Reykjavík, Fjölbrautaskólann í Breiðholti og Fjölbrautaskólann á Suðurnesjum. Við erum með á teikniborðinu undirbúning að nýjum Listaháskóla og svo nefni ég auðvitað þjóðarleikvanga.“

Lilja segir að margir deili þessari skoðun með henni og því býst hún við því að breið samstaða náist um aðgerðir af þessu tagi. Hætt sé við að niðursveiflan sé meiri en spár geri ráð fyrir. Það sé reynslan úr litlu og opnu hagkerfi eins og því íslenska að sveiflan verði gjarnan talsvert ýktari en gert sé ráð fyrir. Það sé raunin bæði í upp- og niðursveiflum.

Segir hún að fjárfestingar séu ekki eina verkfærið sem nú megi beita. Einnig verði að lækka tryggingagjald og þá eigi sveitarfélög einnig að leggja sitt af mörkum með því að lækka fasteignagjöld sem séu há hér á landi í alþjóðlegum samanburði.

Nánar er rætt við Lilju í Morgunblaðinu í dag. Einnig er hægt að hlusta á viðtalið í Viðskiptapúlsinum hér að neðan:

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert