Í tjaldferð á hálendinu í óveðrinu

Flestum þætti það væntanlega galin hugmynd að ganga þvert yfir landið í febrúar en það er pólski ofurhuginn Lukasz Supergan einmitt að gera þessa dagana. Hann hefur að mestu verið heppinn með veður en þurfti að halda til í baðherbergi í skála þegar óveðrið gekk yfir á dögunum. 

Í myndskeiðinu má sjá myndir af ferðalagi Lukaszar og þar á meðal myndskeið sem hann tók í óveðrinu. Viðtalið var tekið þegar Lukasz var staddur í Goðdölum skammt frá Varmahlíð.

Hægt er að fylgjast með Lukaszi á facebooksíðunni hans.

Þegar kemur að því að komast yfir jökulfljótin á hálendinu hefur Lukasz þurft að gera krók á leið sína til að komast að næstu brú. „Stundum tekur þetta einn dag en á endanum finnur maður brú stærsta vandamálið var á Sprengisandi við Hofsjökul,“ segir Lukasz. Þar sé mikið af minni ám sem renni víða og því þurfti hann að ganga langleiðina að Varmahlíð til að komast hjá þeim en sá krókur hefur bætt tveimur dögum við ferðina.

Lukasz hefur náð að fara stærstan hluta leiðarinnar á skíðum. …
Lukasz hefur náð að fara stærstan hluta leiðarinnar á skíðum. Stundum hefur hann þó þurft að ganga. Ljósmynd/Aðsend

Hvað skyldi reka menn í slíkan leiðangur? 

„Fyrir þremur árum fór ég sömu leið að sumarlagi eftir langan undirbúning og yfirlegu. Í þeirri ferð varð ég sannfærður um að það væri stórkostlegt að fara sömu leið að vetrarlagi það hefur verið raunin. Aðstæðurnar eru að sjálfsögðu erfiðar en landslagið er algerlega magnað. Í raun tel ég mig hafa verið heppinn því að þrátt fyrir óveðrið hefur veðrið í raun verið skaplegt. Í næstum tvær vikur var veðrið bjart og þá var afar tilkomumikið að sjá sólina rísa. Að vera einsamall í þessu umhverfi er býsna magnað og ég sé ekki eftir að hafa lagt í þessa för.“

Lukasz gerir ráð fyrir að koma niður í Húsafelli um miðja næstu viku og verður þá búinn að þvera landið. Þar mun hann skilja stærstan hluta af farangri sínum eftir og ganga restina af leiðinni að Snæfellsnesi.   

Leiðin sem Lukasz lagði upp með að ganga. Hann hefur …
Leiðin sem Lukasz lagði upp með að ganga. Hann hefur þó þurft að bæta við töluverðum vegalengdum til að komast að brúm. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert