Trúnaður gildir þar til samkomulag næst

Álver Rio Tinto í Straumsvík. Trúnaður mun ríkja um raforkusamning …
Álver Rio Tinto í Straumsvík. Trúnaður mun ríkja um raforkusamning álversins við Landsvirkjun þar til samningar nást formlega á milli aðila um afléttingu trúnaðar. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Samningurinn er auðvitað trúnaðarmál enn þá og því verður ekki breytt nema með sérstöku samkomulagi aðila,“ segir Bjarni Már Gylfason, upplýsingafulltrúi álvers Rio Tinto í Straumsvík, í samtali við mbl.is, um raforkusamning álversins við Landsvirkjun.

mbl.is kannaði hvort unnt væri að fá að sjá samninginn, nú þegar bæði Landsvirkjun og talsmenn álversins hafa lýst því opinberlega yfir að réttast væri að aflétta trúnaði af raforkusamkomulaginu. Landsvirkjun skrifaði Rio Tinto formlegt bréf með ósk þess efnis í síðustu viku.

„Það er ánægjulegt að Landsvirkjun sé sammála okkur um að trúnaði sé lyft, eins og við lögðum til í síðasta mánuði. Við viljum að það ríki gegnsæi um raforkuverð en okkar raforkuverð er ekki samkeppnishæft, hvorki á Íslandi né í alþjóðlegu samhengi,“ segir Bjarni.

Trúnaðurinn mun gilda þar til formlega hefur verið samið um annað og Bjarni segist ekki vita hvað það gæti tekið langan tíma að semja um birtingu samningsins á milli Landsvirkjunar og Rio Tinto.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka