Hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu líða að meðaltali 473 dagar frá því að beiðni um breytingu á umgengni barna lýkur með úrskurði eða útgáfu árangurslauss sáttavottorðs.
Þegar um forsjár- og meðlagsmál er að ræða líða að meðaltali 64 dagar frá beiðni til niðurstöðu. Lengsti tími sem liðið hefur frá beiðni til úrskurðar í umgengnismálum er 1.852 dagar, rúm fimm ár, og 1.060 dagar, rúm þrjú ár, þegar um forsjár- og meðlagsmál er að ræða.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í skriflegu svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni, þingmanni Pírata, um stjórnsýslu forsjár og umgengnismála. Málsmeðferðartími er einnig nokkuð langur hjá öðrum sýslumannsembættum; í umgengnismálum er hann t.d. 468 dagar á Suðurnesjum og 291 dagur á Suðurlandi.
Í Morgunblaðinu í dag kveðst Björn Leví vera að fara í gegnum svar ráðherra með sérfræðingum. Hann segir að í kjölfarið hyggist hann endurflytja þingsályktunartillögu sína frá síðasta þingi um bætta stjórnsýslu í umgengnismálum og laga hana þá að upplýsingunum.