Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, gagnrýndi stjórnvöld í Venesúela harðlega í ávarpi sínu í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna í dag. Þá lagði hann sérstaka áherslu á réttindi hinsegin fólks og að ekki væri hægt að una því að samkynhneigð sé víða skilgreind sem glæpur. Guðlaugur Þór átti einnig fund með Michelle Bachelet, mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna.
Ísland tók sæti í mannréttindaráðinu sumarið 2018 en aðdragandinn að framboði Íslands var um margt óvenjulegur. Bandaríkjastjórn sagði sig úr mannréttindaráðinu og með því losnaði eitt sæti fyrir ríki úr hópi Vesturlanda (WEOG-hópnum). Úr varð að Ísland gaf kost á sér til setu út kjörtímabilið, sem lauk um áramótin.
Guðlaugur Þór sagði í samtali við mbl.is fyrr í mánuðinum að seta Íslands í ráðinu hafi verið prófsteinn á íslenska utanríkisþjónustu og að það væri samdóma álit erlendra fjölmiðla og annarra að seta Íslands hafi heppnast mjög vel.
Í ávarpi sínu í dag sagði hann mannréttindaráðið ekki bara vera vettvang fyrir stóru og voldugu ríkin. „Og ég trúi því að við höfum sýnt að smærri ríki geti á tíðum átt frumkvæði í mikilvægur málefnum.“
Guðlaugur Þór lagði áherslu á að þau ríki sem jörðin eru til setu í ráðinu gangi á undan með góðu fordæmi. Gagnrýndi hann sérstaklega kjör Venesúela í ráðið enda væru mannréttindi þverbrotin í landinu. „Mannréttindabrot ríkisstjórnar Nicolasar Maduro hafa valdið mikilli neyð sem hefur rekið milljónir á vergang,“ sagði Guðlaugur Þór.
Þá lagði hann áherslu á að það sama yrði yfir öll ríki að ganga í ráðinu en hingað til hefur sérstakur dagskrárliður verið tileinkaður málefnum Ísraels á hverjum einasta fundi ráðsins. Ekkert annað ríki eða landsvæði heyrir undir sérstakan dagskrárlið af þessu tagi.
Málefni hinsegin fólks voru ráðherra einnig ofarlega í huga og þær ofsóknir sem það sætti víða um heim. „Sú staðreynd að samkynhneigð sé skilgreind sem glæpur í um sjötíu aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna er óásættanleg og við hljótum að vera sammála um að þeim lögum skuli breyta,“ sagði hann.