Óásættanlegt að samkynhneigð sé glæpur í 70 aðildarríkjum

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, í ræðustól mannréttindaráðsins í …
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, í ræðustól mannréttindaráðsins í dag. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Guðlaug­ur Þór Þórðar­son, ut­an­rík­is- og þró­un­ar­sam­vinnuráðherra, gagn­rýndi stjórn­völd í Venesúela harðlega í ávarpi sínu í mann­rétt­indaráði Sam­einuðu þjóðanna í dag. Þá lagði hann sér­staka áherslu á rétt­indi hinseg­in fólks og að ekki væri hægt að una því að sam­kyn­hneigð sé víða skil­greind sem glæp­ur. Guðlaug­ur Þór átti einnig fund með Michelle Bachelet, mann­rétt­inda­full­trúa Sam­einuðu þjóðanna.

Ísland tók sæti í mann­rétt­indaráðinu sum­arið 2018 en aðdrag­and­inn að fram­boði Íslands var um margt óvenju­leg­ur. Banda­ríkja­stjórn sagði sig úr mann­rétt­indaráðinu og með því losnaði eitt sæti fyr­ir ríki úr hópi Vest­ur­landa (WEOG-hópn­um). Úr varð að Ísland gaf kost á sér til setu út kjör­tíma­bilið, sem lauk um ára­mót­in. 

Guðlaug­ur Þór sagði í sam­tali við mbl.is fyrr í mánuðinum að seta Íslands í ráðinu hafi verið próf­steinn á ís­lenska ut­an­rík­isþjón­ustu og að það væri sam­dóma álit er­lendra fjöl­miðla og annarra að seta Íslands hafi heppn­ast mjög vel. 

Í ávarpi sínu í dag sagði hann mann­rétt­indaráðið ekki bara vera vett­vang fyr­ir stóru og vold­ugu rík­in. „Og ég trúi því að við höf­um sýnt að smærri ríki geti á tíðum átt frum­kvæði í mik­il­væg­ur mál­efn­um.“  

Michelle Bachelet, mannréttindafulltrúi SÞ, og Guðlaugur Þór Þórðarson.
Michelle Bachelet, mann­rétt­inda­full­trúi SÞ, og Guðlaug­ur Þór Þórðar­son. Ljós­mynd/​Stjórn­ar­ráðið

„Hljót­um að vera sam­mála um að þeim lög­um skuli breyta“

Guðlaug­ur Þór lagði áherslu á að þau ríki sem jörðin eru til setu í ráðinu gangi á und­an með góðu for­dæmi. Gagn­rýndi hann sér­stak­lega kjör Venesúela í ráðið enda væru mann­rétt­indi þver­brot­in í land­inu. „Mann­rétt­inda­brot rík­is­stjórn­ar Nicolas­ar Maduro hafa valdið mik­illi neyð sem hef­ur rekið millj­ón­ir á ver­gang,“ sagði Guðlaug­ur Þór.

Þá lagði hann áherslu á að það sama yrði yfir öll ríki að ganga í ráðinu en hingað til hef­ur sér­stak­ur dag­skrárliður verið til­einkaður mál­efn­um Ísra­els á hverj­um ein­asta fundi ráðsins. Ekk­ert annað ríki eða landsvæði heyr­ir und­ir sér­stak­an dag­skrárlið af þessu tagi.

Mál­efni hinseg­in fólks voru ráðherra einnig of­ar­lega í huga og þær of­sókn­ir sem það sætti víða um heim. „Sú staðreynd að sam­kyn­hneigð sé skil­greind sem glæp­ur í um sjö­tíu aðild­ar­ríkj­um Sam­einuðu þjóðanna er óá­sætt­an­leg og við hljót­um að vera sam­mála um að þeim lög­um skuli breyta,“ sagði hann.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert