Spítalinn vel tækjum búinn til að bregðast við

Páll á blaðamannafundi vegna bráðamóttökunnar í dag.
Páll á blaðamannafundi vegna bráðamóttökunnar í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Forstjóri Landspítalans segir spítalann vel í stakk búinn til þess að bregðast við ef eða þegar kórónuveiran COVID-19 berst hingað til lands.

Fyrir liggur að þeir sem verst veikjast af völdum kórónuveirunnar, hverrar einkenni svipa til lungnabólgu, þurfa gjarnan á stuðningi öndunarvélar að halda. Páll Matthíasson segir að spítalinn hafi yfir fjölda öndunarvéla að ráða og að þær hafi sannað gildi sitt í svínaflensufaraldrinum.

„Við höfum unnið undirbúningsáætlun í samræmi við þær áætlanir sem lagðar voru fyrir stjórnvöld. Því hefur miðað vel að undirbúa spítalann, bæði að því er það varðar og hvað útbúnað varðar og verklag,“ sagði Páll Matthíasson í samtali við mbl.is.

Hvað búnað varðar segir Páll að öndunarvélar Landspítalans hafi dugað í fyrri faraldri, þegar mikið hafi reynt á öndunarvélar, og á þar við svínaflensufaraldurinn 2009.

Má mikið vera ef við klúðrum þessu 

Að sögn Ölmu D. Möller landlæknis voru öndunarvélar Landspítalans endurnýjaðar þegar SARS-faraldurinn svokallaði, önnur tegund kórónuveiru, gekk yfir á árunum 2002 til 2003, en ekki reyndi á þær þar sem enginn greindist með SARS hérlendis. Hins vegar hafi það komið sér vel þegar svínaflensan reið yfir. „Okkur gekk mjög vel í svínaflensunni og það má mikið vera ef við klúðrum þessu,“ segir Alma.

Alma D. Möller landlæknir.
Alma D. Möller landlæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„En eðli þessa veirusjúkdóms og upplýsingar um það breytast dag frá degi svo maður getur kannski ekki spáð fyrir um það, en við erum með töluvert af öndunarvélum sem hægt er að nota,“ segir Páll að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert