Bæjarráð Ísafjarðar hefur tekið jákvætt í erindi um að finna Maríu Júlíu BA nýjan stað á Ísafirði. Skipið er sögufrægt, byggt fyrir 70 árum úr eik í Danmörku og þjónaði sem björgunarskip, varðskip, rannsóknaskip og fiskiskip. Það er nú í eigu Byggðasafns Vestfjarða og Minjasafns Egils Ólafssonar á Hnjóti.
Í fornbátaskrá, sem Samband íslenskra sjóminjasafna gaf nýlega út, kemur fram að ástand skipsins sé slæmt og á meðan ekki fáist fé til viðgerða haldi María Júlía áfram að fúna.
Fjallað var um bréf Jónu Símoníu Bjarnadóttur, forstöðumanns Byggðasafns Vestfjarða, á fundi bæjarráðs Ísafjarðar í síðustu viku. Í bréfi hennar kemur fram, að hugmyndin sé að setja skipið upp í Suðurtanganum á Ísafirði, en þar sé renna sem hægt sé að dýpka og renna skipinu upp í. Þar með yrði tryggt að sjór lægi að skipinu. Óskað var eftir 300 þúsund króna framlagi frá bænum vegna þessa, en í bréfinu kemur fram að unnið sé að því að finna leiðir til fjármögnunar á lagfæringum á Maríu Júlíu. Vænst er niðurstöðu þar að lútandi fyrir lok þessa árs.
Í bréfinu segir m.a. að skipið hafi legið í höfn á Ísafirði býsna lengi og beðið þess að fjármagn kæmi til lagfæringa. „Það er ljóst að skipið tekur dýrmætt hafnarpláss og safnið greiðir af skipinu rafmagn og gjöld. Í ljósi þess að ástand skipsins fer versnandi og hætta er á að það sökkvi, er æskilegt að því verði fundinn nýr staður þar sem það verður í sjó án þess að taka bryggjupláss,“ segir í bréfinu.