Jóhann Ólafsson
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á blaðamannafundi sem haldinn var síðdegis vegna kórónuveirunnar COVID-19 að íslenska heilbrigðiskerfið myndi ráða við verstu mögulegu sviðsmynd vegna veirunnar. Samkvæmt henni myndu 300 tilfelli koma upp hér á landi og upp undir tíu dauðsföll.
Versta mögulega sviðsmynd hér á landi tekur mið af því hvernig málin hafa þróast í Hubei-héraði í Kína. Tölur þaðan eru síðan yfirfærðar á Ísland og ekki tekið tillit til aðgerða viðbragðsaðila.
„Ef tölur þaðan væru yfirfærðar á Ísland, án þess að við myndum gera eitthvað, gætum við búist við 300 tilfellum. 20 af þeim yrðu gjörgæslutilfelli og dauðsföll upp undir tíu,“ sagði Þórólfur.
„Ég held að heilbrigðiskerfið á Íslandi geti ráðið við þetta,“ sagði Þórólfur.
Sóttvarnalæknir benti enn fremur á að einkennalaust fólk, sem væri smitað en ekki veikt, gæti ekki smitað aðra.