Lýðræðismál að kjósa að vori

Logi Einarsson, formaður Samfylkingar, hyggst sækjast eftir því að leiða …
Logi Einarsson, formaður Samfylkingar, hyggst sækjast eftir því að leiða flokkinn áfram í næstu kosningum eftir rúmlega ár. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ríkisstjórnin er ýmist föst inni hjá sér með mál og kemur þeim ekki til þingsins og jafnvel þótt hún nái að koma þeim þangað þá er rifist um þau innbyrðis í þingsal og á nefndarfundum. Ég held að vandamálið liggi hjá ríkisstjórninni. Þetta eru mjög ólíkir flokkar sem deila ekki grundvallarsýn og þá skapast þessi vandamál.“ 

Þetta sagði Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, í viðtali í Kastljósi í kvöld. Hann segir það vera lýðræðismál að kosið verði vorið 2021 en ekki um haustið líkt og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, lagði til um helgina.

Logi sagði það einnig henta betur hvað varðar fjárlög, það er að ríkisstjórn fái ásættanlegan tíma til að leggja fram góð fjárlög, að kjósa að vori. Þá staðfesti hann að hann hyggst sækjast eftir endurkjöri sem formaður Samfylkingarinnar. 

Útilokar samstarf með Sjálfstæðisflokki og Miðflokki

„Við viljum vera stærri flokkur,“ sagði Logi, en aðalatriðið að hans mati er að komast í ríkisstjórn. Ríkisstjórn frá miðju til vinstri er efst á óskalista formannsins og nefndi hann Vinstri græn, Pírata, Viðreisn og Framsóknarflokkinn í því samhengi. 

Aðspurður hvort hann myndi hafna samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn sagðist Logi tvisvar hafra hafnað slíku samstarfi. „Ég sé engan hag í því að sækjast eftir einhverjum skammtímagróða fyrir flokkinn eða mig sem persónu. Aðalatriðið er að við náum okkar markmiðum, þótt á lengri tíma sé. Stjórnmál eru ekki spretthlaup,“ sagði Logi. Þá sagðist hann ekki sjá málefnalegan grundvöll fyrir samstarfi við Miðflokkinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert