Samninganefndir Eflingar og Reykjavíkurborgar hafa fundað í sitt hvoru lagi í húsakynnum ríkissáttasemjara frá því klukkan 14:30 í dag. Vika er frá síðasta samningafundi.
„Það liggur ekki fyrir hvernig framhaldið verður,“ segir Elísabet S. Ólafsdóttir, skrifstofustjóri hjá ríkissáttasemjara, þegar blaðamaður spyr hvort samningsaðilar sitji enn á aðskildum fundum.
Fundurinn er bókaður til klukkan 18 en Elísabet segir að það sé fyrst og fremst af praktískum ástæðum þar sem húsið sé „yfirfullt af samninganefndum og samningafólki“. Það segir hins vegar ekki til um lengd fundarins.
Ótímabundið verkfall um 1.800 félagsmanna Eflingar hjá Reykjavíkurborg hefur staðið yfir frá 17. febrúar. Áhrifin eru veruleg, ekki síst á leikskólum og hjúkrunarheimilum borgarinnar og hvað varðar sorphirðu.