„Ég spyr, hvað verður um svona fjölskyldur eins og okkur, sem höfum engan til að hjálpa okkur, við erum að missa tekjurnar okkar? Ef febrúar og mars verða þannig að við missum helming af okkar tekjum, eða jafnvel meira, þá þýðir það að við og aðrir í sömu stöðu, getum ekki borgað reikningana, borgað af lánum. Og þá byrjar allt vesenið.“
Þetta segir Predrag Moraca, faðir tveggja ára leikskólabarns í Reykjavík sem hefur verið heima alveg frá því ótímabundið verkfall félagsmanna Eflingar hjá Reykjavíkurborg hófst. Leikskóli dóttur hans er alveg lokaður, hefur verið í ellefu daga og verður áfram þar til kjaradeilan leysist.
Predrag, líkt og margir aðrir foreldrar, er kominn í mikil vandræði vegna verkfallsins. Fundi í kjaradeilunni var slitið í gær eftir árangurslausar viðræður og annar fundur hefur ekki verið boðaður. Ekki er því útlit fyrir að deilan leysist á næstu dögum.
Predrag og konan hans hafa skiptast á að vera heima með stúlkuna og hingað til nýtt alla þá orlofsdaga sem þau áttu inni. Nú eru þeir hins vegar uppurnir og við er tekið launalaust leyfi hjá þeim báðum sem kemur mjög illa við fjárhag fjölskyldunnar.
Predrag er frá Serbíu, en hefur búið á Íslandi í rúm 20 ár. Bakland fjölskyldunnar hér á landi er engu að síður lítið og enginn sem getur stokkið til og gætt dótturinnar á meðan þau vinna. Þau þurfa því alfarið að reiða sig á sig sjálf. „Við erum eldri foreldrar og við eigum ekki rætur hér á landi. Það eru því ekki ömmur og afar sem geta hlaupið til. Í síðustu viku var konan heima í þrjá daga á meðan ég fór að vinna. Í þessari viku er það öfugt, ég vinn tvo daga og hún þrjá.“
Þegar verkfallið hófst ræddu þau bæði við vinnuveitendur sína og leituðu lausna en það var ekkert hægt að gera innan fyrirtækisins. Að minnsta kosti ekki að svo stöddu.
„Vinnuveitandi minn er mjög skilningsríkur og gefur mér leyfi til að taka launalaust frí. Ég spurði hvort það væru til einhver úrræði, hvað væri hægt að gera, en vinnuveitandi er auðvitað ekki skikkaður til að borga laun ef við erum ekki í vinnu. Það var því bara annaðhvort að taka orlof eða launalaust leyfi. Ég vinn iðnaðarmannavinnu og hún er þannig að ég get ekki tekið hana með mér heim. Ég er því alveg launalaus.“
Predrag segist vel skilja kjarabaráttu Eflingar og vill að starfsfólk á leikskóla fái mannsæmandi laun. „Við skiljum hvers vegna það er verkfall og við skiljum kjarabaráttu þeirra sem eru með lægstu launin. Við skiljum það alveg. Skólarnir eru ein af helstu uppistöðum samfélagsins, ásamt heilbrigðiskerfi og lögreglu. Við viljum að þetta fólk fái sæmileg laun fyrir sína vinnu.“
Það er hins vegar aðgerða- og ábyrgðarleysi stjórnvalda sem svíður mest. „Það er enginn sem tekur ábyrgð á því sem er að gerast. Reykjavíkurborg vissi fantavel áður en kom til verkfalls að hlutirnir myndu ekki ganga greiðlega fyrir sig. Það hefur komið í ljós að margir eru komnir með nóg og ég hef áhyggjur af því að verkföllin muni halda áfram af meiri krafti. Aðgerðaleysi borgarstjórnar og ríkisstjórnarinnar er furðulegt.“
Hann segir að sem betur fer séu alls ekki allir í jafn slæmri stöðu og þau, algjörlega án baklands, en óttast að þetta geti komið af stað hrinu vanskila hjá þeim sem hafa það verst. Honum finnst það mikið ábyrgðarleysi hjá yfirvöldum að leggja ekki harðar að sér að leysa þessa deilu. „Það er verið að koma mér í skuldasúpu. Nú verð ég skuldari. Hver ber ábyrgð á minni stöðu sem ég kaus ekki að vera í? Ég stend við mína samninga, mínar greiðslur,“ segir Predrag og vísar þar til bæði leikskóla- og sorphirðugjalda sem hann spyr hvort verði felld niður vegna verkfallsins. „Á þeim 23 árum sem ég hef búið á Íslandi hefur það kannski gerst tvisvar vegna gleymsku að reikningur hafi ekki verið borgaður á réttum tíma. Ég hef aldrei verið á svörtum lista eða skuldað einhverjum vinnu eða greiðslu.“
Predrag segir þetta ástand líka hafa slæm áhrif á dóttur hans. „Það er búið að vera kalt úti og leiðinlegt veður síðustu daga þannig að inniveran er mikil. Við reynum alltaf að komast aðeins út til að breyta um umhverfi. En dóttir okkar er að verða pirruð á að vera alltaf á sama stað. Það er allt öðruvísi í leikskólanum, þar eru þau með öðrum krökkum og gera ýmsa hluti. Hún er farin að sýna þreytu.“
Sjálfur upplifir hann samviskubit og finnst hann skulda vinnuveitanda sínum eitthvað. Það finnst honum vond tilfinning.
„Mér finnst ég skulda mínum vinnuveitanda fyrir skilninginn yfir því að ég þurfi að vera heima. Að ég sé ekki skikkaður í vinnu. Þessi tilfinning er þannig að mér finnst ég vera að svíkjast um eða stela frá mínum vinnuveitanda og jafnvel frá kúnnunum sem ég átti að vinna verk fyrir. Það þarf að fá einhvern annan eða verkinu seinkar. Þetta kemur niður á öllum með einhverjum hætti.“
Blake Greene er einstæð móðir með tveggja ára dóttur sem hefur ekki komist í leikskólann vegna verkfalls síðustu ellefu daga. Ástandið er farið að hafa verulega slæm áhrif á þær mæðgur. Bakland Blake hér á landi er ekki sterkt en bróðir hennar býr einnig á Íslandi og konan hans og fjölskylda hennar hafa hlaupið undir bagga.
„Ég á bróður hérna á Íslandi og ég hef stólað algjörlega á konuna hans og fjölskylduna hennar. Foreldrar hennar hafa aðstoðað mig með dóttur mína og þau eru alveg yndisleg. Við erum náin en þetta er mjög óþægileg byrði að setja á þau.“
Blake reynir að vinna heima en það er ekki sérstaklega auðvelt með tveggja ára barn. Hún þarf að nýta vel tímann þegar dóttir hennar leggur sig og á kvöldin þegar hún er sofnuð. Það er hins vegar að verða erfiðara því svefnrútínan hefur algjörlega farið úr skorðum í verkfallinu.
„Hún fer auðvitað miklu minna út heldur en hún gerir á leikskólanum og er ekki að leika við aðra krakka allan daginn, þannig að hún þreytist síður og það kemur niður á svefnrútínunni. Hún hefur alltaf átt auðvelt með að sofna á daginn en nú gengur það mjög illa. Á kvöldin hefur hún yfirleitt sofnað um leið og hún fer upp í rúm um áttaleytið, en nú er hún ekki að sofna fyrr en um klukkan tíu. Það er því mjög erfitt fyrir mig að bíða þangað til hún sofnar svo ég geti unnið.“
Blake hefur ekki tök á því að nýta það orlof sem hún á inni því hún verður að nota það í sumar þegar leikskóli dóttur hennar fer í sumarfrí. Hún verður því að vinna eins mikið og hún getur heima. Í síðustu viku var hún heima í þrjá daga með dóttur sína, mágkona hennar var með hana í einn dag og mamma hennar einn.
„Ég verð að geta mætt á fundi í vinnunni. Ég tók hana með á fund á mánudaginn og hef reynt að fara með hana í vinnuna nokkrum sinnum, en það er ekki mjög vænlegur kostur. Ég tók spjaldtölvuna með en hún heldur ekki athygli yfir henni nema í skamman tíma og hún truflar annað starfsfólk. Ekkert af þessu eru í raun vænlegir kostir en ég hef reynt eins og ég get að spara orlofið mitt til að geta tekið það í sumar. Ég hef ekki efni á að taka launalaust leyfi.“
Barnsfaðir Blake býr í Kenía en hann er nú kominn til Íslands tímabundið til að létta undir. Hún vonar því að næstu dagar verði eitthvað auðveldari.
En verkfallið hefur ekki bara áhrif á svefnrútínu dóttur hennar, heldur líka íslenskuna sem henni finnst hún vera að missa niður. „Þegar hún heima hjá mér þá talar hún ensku. Ég hef tekið eftir breytingu á framburði hennar. Það virðist eins og hún sé farin að gleyma. Hún er líka mun pirraðri en venjulega því hún fær ekki þá útrás sem hún þarf í leik.“
Blake segir síðustu daga því hafa verið mjög krefjandi fyrir þær mæðgur og allt sé í raun komið úr skorðum. Þá sé allt orðið óhreint heima hjá þeim. Og kötturinn fer ekki varhluta af ástandinu. „Kötturinn er stressaður því hún er heima allan daginn. Hann hefur látið furðulega líka og klórar í sófann eins og brjálæðingur. Hann skilur ekkert í því af hverju barnið er alltaf heima,“ segir Blake hlæjandi. „En til að súmmera þetta upp, þá eru allir uppgefnir,“ segir hún alvarlegri í bragði.