Eiginkona mannsins sem greindist með kórónuveiru í dag er ekki sýkt af veirunni. Sýni var tekið úr henni en það reyndist neikvætt. Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra greinir frá þessu á Facebook.
Fjölskylda mannsins er í sóttkví vegna veirunnar sem og vinnustaður mannsins. Hann er á fimmtugsaldri og er ekki bráðveikur.
Fjölskyldan var á skíðum á Norður-Ítalíu dagana 15.-22. febrúar, þó ekki í einu þeirra fjögurra héraða þar í landi sem skilgreind hafa verið sem smithættusvæði.
Maðurinn veiktist eftir að hann kom til landsins og smit hans var staðfest á veirudeild Landspítala laust eftir kl. 13 í dag.
Alma D. Möller landlæknir sagði á blaðamannafundi í dag að fjölskylda mannsins hefði tekið fréttunum um veikindi hans með miklu æðruleysi.
Maðurinn er sá fyrsti sem greinst hefur með kórónuveiruna hérlendis.