Boðað hefur verið til mótmælasamkomu í ráðhúsinu á morgun þar sem aðgerðaleysi í tengslum við verkfall starfsfólks á vegum Eflingar í leikskólum verður mótmælt. Skipuleggjandi mótmælanna segir að um gjörning sé að ræða þar sem álagi af foreldrum sé tímabundið komið yfir í ráðhúsið.
„Leikskólabörn og foreldrar eru langþreytt á aðgerðaleysi í verkfallinu. Við ætlum að hittast með börnin í ráðhúsinu og hafa gaman og mikið stuð. Það virðist sem flestum sé sama hvar börnin dvelja á daginn. Því ekki að fara í eltingaleik í ráðhúsinu?“ segir í lýsingu viðburðarins.
Silja Hlín Guðbjörnsdóttir boðaði til mótmælanna á Facebook. Hún á sjálf dóttur á leikskóla í Reykjavík sem hefur orðið fyrir verkfallinu. Er hún því heima flesta daga. Silja segir að það hafi hitt þannig á að eiginkona hennar sé atvinnulaus og því sé hún í betri stöðu en flestir, en engu að síður komi það illa við dótturina að rífa hana út úr rútínu sem leikskólinn var.
Silja segir að hugmyndin um viðburðinn hafi komið upp eftir samtöl við fleiri í sömu stöðu og hún. Hún segist ekki vita hvort það mæti bara tvennir foreldrar eða nokkrir tugir, en að hún hafi viljað gera eitthvað. „Í versta falli verður þetta skoðunarferð um ráðhúsið.“
Verkföllin hafa nú varað í nokkrar vikur og segir Silja að hún og fleiri foreldrar séu orðin mjög þreytt á ástandinu. Bendir hún á að margir foreldrar séu í þeirri stöðu að þurfa að taka launalaust leyfi eða sumarfrí. Hún vill ekki taka afstöðu með öðrum hvorum deiluaðilanum og segir að aðalatriðið sé að vekja athygli á stöðunni. Hún geti ekki metið hvort það sé borgin eða Efling sem dragi lappirnar, en það sé óþolandi þegar deiluaðilar ræðist ekkert við.
Mótmælin hefjast klukkan 11:00 og segir Silja að ætlunin sé að leyfa krökkunum að hlaupa um og leika sér og „hafa ekki jafn stutta ól á þeim og alla jafna“.