Maðurinn sem greindist sýktur af kórónuveiru í dag, og varð þannig annar einstaklingurinn til að greinast hér á landi, er í einangrun heima hjá sér. Þarf hann að vera lokaður af og má ekki fara úr húsi auk þess að mega ekki vera í samskiptum við annað fólk meðan hann er smitandi. Á það líka við um fjölskyldu hans. Þetta segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við mbl.is.
Maðurinn kom frá Ítalíu með flugi Icelandair í gær, en allir 180 farþegar vélarinnar hafa nú verið settir í sóttkví samkvæmt tilmælum almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra.
Þórólfur segir að munurinn á sóttkví og einangrun sé sá að fólk í sóttkví sé grunað um smit en sé ekki veikt. Það sé beðið um að vera heima hjá sér og ekki innan um aðra, en geti farið út að ganga og jafnvel í ökutúr. Fólk í einangrun megi ekki vera innan um aðra og verði að halda sig á heimilinu, enda sé það smitandi.
Þegar fyrra smitið kom upp hér á landi á föstudaginn var samstarfsfólk viðkomandi sett í sóttkví. Spurður hvort svipaðar ráðstafanir hafi verið gerðar við einhverja tengda manninum sem greindist í dag segir Þórólfur að þess hafi ekki þótt þörf. Hann hafi fylgt fyrirmælum heilbrigðisstarfsfólks við komuna og farið beint heim og ekki verið í samneyti við neinn eftir heimkomuna.
Samhliða því að tilkynnt var um smit mannsins í dag gaf almannavarnadeild ríkislögreglustjóra út að búið væri að færa út áhættusvæði á Ítalíu, sem áður náði til fjögurra héraða, til alls landsins. Með þessu segir Þórólfur að Ísland sé að fara lengra en aðrar þjóðir. „Mér vitanlega hafa ekki aðrir sett Ítalíu í heild á þennan lista. Ég hef verið í samskiptum við kollega mína erlendis og þetta hefur verið í umræðunni þar, en við höfum frá upphafi verið með strangari og stífari reglur en hjá nágrannaþjóðum okkar,“ segir Þórólfur.
„Við teljum þetta nauðsynlegt til að stöðva faraldurinn frá byrjun og í samræmi við viðbragðsáætlanir sem við höfum haft frá upphafi. Samkvæmt þeim ætluðum við að bregðast hart við þegar fyrstu tilfellin kæmu upp til að stöðva útbreiðsluna sem best,“ segir hann og bætir við að staðan verði svo auðvitað endurmetin þegar líði á og athugað hvort fjölga þurfi áhættusvæðunum.
Samtals starfa sjö manns í samhæfingarmiðstöðinni í Skógarhlíð, en til viðbótar kemur hópur fólks frá hinum ýmsu stofnunum. Spurður hvort mannskapurinn sé nægur til að takast á við verkefni eins og það sem nú er komið upp með 180 tilvikum um sóttkví segir Þórólfur að núna séu um 20 manns sem komi að störfum samhæfingarmiðstöðvarinnar. Þá sé í sífelldri endurskoðun hvort þurfi meiri mannskap og hvar álagið sé hverju sinni. Þannig sé til dæmis áhersla núna á að ná til allra þeirra 180 sem voru í vélinni og það geti tekið sinn tíma. Biður hann fólk að sýna biðlund meðan unnið sé að því.
„Það er sífelld endurskoðun á því hvort þurfi meiri mannskap. Það er unnið að því stöðugt. Þetta mun ekki klárast í kvöld eða á morgun og mun líklega taka einhverjar vikur held ég,“ segir Þórólfur.