Blómabændur fengu innfluttan blómvönd

Sveinn Sæland, Áslaug Sveinbjarnardóttir, Heiða Pálrún Leifsdóttirog Axel Sæland tóku …
Sveinn Sæland, Áslaug Sveinbjarnardóttir, Heiða Pálrún Leifsdóttirog Axel Sæland tóku á móti verðlaununum á Búnaðarþingi í dag. Ljósmynd/Aðsend

Blómabændurnir á Espiflöt fengu afhent landbúnaðarverðlaun ársins 2020 á Búnaðarþingi í dag. Athygli vakti að við afhendinguna sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á verðlaununum fengu þeir afhentan innfluttan blómvönd.

Heiða Pálrún Leifsdóttir, einn eigenda Espiflatar, vakti máls á þessu við afhendingu verðlaunanna og uppskar hlátur viðstaddra. mbl.is sló á þráðinn til Heiðu til að óska henni til hamingju og spyrja nánar út í atvikið.

„Ég var í góðum hóp til þess að koma með þennan brandara. Mér fannst það skondið að við fengjum afhent þessi verðlaun sem blómabændur og fengjum svo blómvönd sem var fullur af innfluttum blómum,“ segir Heiða en segir þetta alls ekki hafa verið gert til að sýna vanþakklæti.

„Okkur fannst mikill heiður að fá þessi verðlaun og að eftir okkur sé tekið. Við erum að reyna að halda uppi heiðri íslenskra blóma og hefðum vitanlega kosið að þau hefðu verið í heiðri höfð þarna, en kannski verður það næst. Þetta er eitthvað til að hafa í huga.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert