Eldri hjónum frá Ítalíu, sem töldu sér hafa verið vísað út úr verslun á vinsælum áningarstað ferðamanna á Suðurlandi á laugardagsmorgun vegna uppruna síns, var vísað út sökum þess að búðin ekki tilbúin til opnunar en ekki vegna þess að þau eru ítölsk, að sögn aðstandanda verslunarinnar.
Einn eigenda verslunarinnar, sem var á staðnum þarna um morguninn, segir við mbl.is að málningarvinna hafi farið fram innandyra aðfaranótt laugardags og þegar fólkið kom inn í búðina á laugardagsmorgun, um klukkan tíu eða hálfellefu, hafi menn enn verið að ganga frá.
„Við höfðum verið að mála þarna um nóttina og búðin var ekki tilbúin til að opna hana. Þetta fólk passar alveg við lýsinguna, þau skildu ekki orð í ensku og hvað sem við reyndum að segja við þau að ekki værið búið að opna búðina þá skildu þau það ekki,“ segir eigandinn við mbl.is og ítrekar að fólkinu hafi alls ekki verið vísað á dyr sökum þess að það er Ítalir heldur bara af því að ekki var búið að opna og enn verið að ganga frá málningardósum.
Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra skilgreinir nú alla Ítalíu sem áhættusvæði fyrir smit og öllum sem þaðan koma hingað til lands er sagt að fara í tveggja vikna sóttkví.
Marco Di Marco, ítalskur leiðsögumaður sem býr hér á landi og greindi mbl.is frá upplifun hjónanna í gærkvöldi, segist harma það ef málið sé allt byggt á risastórum misskilningi. Blaðamaður hafði samband við Marco og lét hann vita af skýringum verslunarinnar á brottvísun hjónanna.
Marco hafði samband við hjónin og lét þau vita af þessum skýringum og miðlaði þeim skilaboðum aftur til blaðamanns að hjónin hefðu talið öruggt að verslunin væri opin þar sem þau hefðu séð fólk ganga inn og út úr búðinni. Þau hefðu orðið sár og sorgmædd yfir viðtökunum.
Leiðsögumaðurinn segir að hjónin leggi þannig ekki fullan trúnað á skýringarnar frá versluninni en voni að þær séu réttar og það gerir hann einnig sjálfur, en hann hafði ekki tök á að kanna málið hjá versluninni strax á laugardagsmorgun þar sem hjónin sögðu honum ekki frá atvikinu fyrr en rúta þeirra var farin áleiðis á næsta áningarstað.
Hann segist þó, rétt eins og hann sagði við mbl.is í gær, hafa fundið fyrir óþægilegum augngotum síðustu daga og orðið var við að fólk færi sig jafnvel fjær ítölsku fólki þegar það talar saman á sinni tungu hérlendis. Hið sama hafi heyrst frá ítölsku fólki í öðrum Evrópulöndum og víðar.
Það sé ef til vill eðlilegt þegar hræðsla við kórónuveirusmit sé ríkjandi, ekki bara á Íslandi heldur víða um heim, en þó leiðinlegt, þar sem hingað til hafi Marco aldrei upplifað annað en almennilegheit í garð sín og annarra Ítala hér á landi.
Viðbót: Marco hafði samband við blaðamann og vildi koma á framfæri opinberri afsökunarbeiðni til þeirra sem reka verslunina sem um ræðir. Eftir að hafa rætt málin við einn eigenda verslunarinnar hafi hann áttað sig á því að hann gerði mistök með því að greina frá málinu opinberlega og trúa frásögn ítölsku hjónanna um atvik án þess að hafa samband við eigendur verslunarinnar og ganga úr skugga um staðreyndir málsins sjálfur.