Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hefur farið fram á við ríkissáttasemjara að haldinn verði samningafundur í kjaradeilu félagsins við Reykjavíkurborg, eigi síðar en í dag.
Óskinni var komið á framfæri símleiðis við Ástráð Haraldsson aðstoðarríkissáttasemjara í morgun, að því er segir í tilkynningu frá Eflingu.
Síðasti fundur í deilunni var á miðvikudaginn í síðustu viku, fyrir átta dögum. Ótímabundið verkfall nær 2.000 félagsmanna Eflingar hefur staðið frá 16. febrúar.
Í fyrradag bauð Efling tveggja daga verkfallshlé gegn staðfestingu borgarstjóra á svokölluðu „Kastljóstilboði“. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagðist í kjölfarið standa við allt sem hann sagði um tilboð Reykjavíkurborgar til Eflingar í Kastljósi, en ekki sé gagnlegt þegar reynt sé að snúa út úr þeim yfirlýsingum eða standa í skeytasendingum í fjölmiðlum.
Ekkert varð því af verkfallsfrestun en í gær féllst Sólveig Anna á boð Dags um fund með tveimur skilyrðum.
Með því að krefjast fundar í dag vill Efling reyna til þrautar að þokast nær samkomulagi í deilunni. „Samninganefnd Eflingar mun krefjast efnda á loforðum borgarstjóra um grunnlaunahækkanir en heildstæð útfærsla á þeim hefur aldrei verið lögð fram við samningaborðið. Einnig mun nefndin krefjast efnda á loforðum borgarstjórnarmeirihlutans um leiðréttingu á launum kvennastétta,“ segir í tilkynningunni.
Þar er jafnframt farið yfir þær tillögur sem Efling hefur áður lagt fram til lausnar og málamiðlana í deilunni, en þær eru svohljóðandi:
„Reykjavíkurborg hefur hafnað öllum ofangreindum tillögum Eflingar,“ segir í tilkynningunni.