Arnar Páll Hauksson, fréttamaður í Speglinum á RÚV, hlaut í dag Blaðamannaverðlaun ársins fyrir fyrir umfjöllun um kjaramál, en verðlaunin voru veitt í húsakynnum Blaðamannafélags Íslands nú fyrir skömmu. Í tilnefningu segir: „Arnar Páll hefur af djúpri þekkingu og áralangri yfirsýn fjallað um kjaramál með afar vönduðum hætti í ótal fréttum og fréttaskýringum á tímum mikils umróts á vinnumarkaði. Hann hefur fjallað ítarlega um hugmyndir og tillögur sem lagðar hafa verið fram í kjaraviðræðum og flytur iðulega fyrstu fréttir af þróun mála.“
Alma Mjöll Ólafsdóttir, Jóhann Páll Jóhannsson, Margrét Marteinsdóttir og Steindór Grétar Jónsson, blaðamenn á Stundinni, fengu verðlaun fyrir umfjöllun ársins um hamfarahlýnun. Í tilnefningu segir: „Í yfirgripsmikilli og vandaðri umfjöllun fjalla blaðamenn Stundarinnar um fyrirséðar afleiðingar og birtingarmyndir loftslagsvár hér á landi og víðar, aðgerðir stjórnvalda og viðleitni einstaklinga til þess að vega upp á móti skaðlegum umhverfisáhrifum sem stafað geta af daglegu lífi fólks.“
Erla Björg Gunnarsdóttir, Nadine Guðrún Yaghi og Jóhann K. Jóhannsson, fréttamenn á fréttastofu Stöðvar 2, Bylgjunnar og Vísis, fengu verðlaun fyrir viðtal ársins í fréttaskýringaþættinum Kompási. Verðlaunin eru veitt fyrir viðtal og umfjöllun um barn sem var lokað inni á heimili með geðveikri móður. Í tilnefningu segir: „Vandað viðtal við 17 ára stúlku, Margréti Lillý Einarsdóttur, sem lýsir því hvernig samfélagið brást henni þegar hún á grunnskólaaldri ólst upp ein hjá móður sem átti við bæði geðrænan vanda og fíknivanda að stríða. Viðtalið vakti verðskuldaða athygli og var fylgt eftir með fjölda frétta um stöðu barna í viðkvæmri stöðu, starfsemi barnaverndarnefnda og fleiri þætti og leiddi meðal annars til þess að bæjarstjóri Seltjarnarness baðst formlega afsökunar á því hvernig staðið var að málum í tilviki Margrétar Lillýjar.“
Verðlaun fyrir rannsóknarblaðamennsku fengu þeir Aðalsteinn Kjartansson, Helgi Seljan, Ingi Freyr Vilhjálmsson og Stefán Drengsson, blaða- og fréttamenn á Stundinni í fréttaskýringaþættinum Kveik á RÚV. Verðlaunin eru veitt fyrir umfjöllun um Samherjamálið. Í tilnefningu segir: „Fá mál vöktu meiri athygli í íslensku samfélagi en umfjöllun Kveiks og Stundarinnar í samvinnu við Al Jazeera og Wikileaks um ásakanir á hendur Samherja um mútugreiðslur í tengslum við starfsemi fyrirtækisins í Namibíu. Umfjöllunin byggðist á staðhæfingum fyrrverandi starfsmanns Samherja í Namibíu og miklu magni gagna sem einnig voru gerð aðgengileg almenningi á netinu samhliða birtingu frétta af málinu. Umfjöllunin hefur haft mikil áhrif, bæði hér heima og erlendis.“