Búast má við miklum titringi og talsverðum látum frá alþingisreitnum næstu daga á meðan verktaki við jarðvegsframkvæmdir nýbyggingar Alþingis rekur niður stálþil meðfram Tjarnargötu.
Stálþilin munu mynda girðingu sem á að koma í veg fyrir að jarðvegurinn undir Tjarnargötu hrynji ofan í holu sem grafa á fyrir kjallara nýju byggingarinnar.
Nýja byggingin verður þjónustukjarni sem mun í fyllingu tímans sameina á einum stað alla starfsemi nefndasviðs, skrifstofur þingmanna, funda- og vinnuaðstöðu þingflokka og fleira. Um er að ræða umfangsmestu framkvæmd á vegum Alþingis í 140 ár og eru verklok áætluð í febrúar árið 2023.
„Þetta er gert svo að umferð á Tjarnargötunni geti haldið áfram meðan á framkvæmdum stendur. Annars þyrfti vinnusvæðið að ná marga metra út fyrir og þá myndi Tjarnargata lokast,“ segir Garðar Þorbjörnsson, verktaki hjá Urð og grjóti, eða Gassi eins og hann er alltaf kallaður, í samtali við mbl.is.
„Hér verður kjallari undir húsinu og það er verið að koma í veg fyrir að Tjarnargatan hrynji ofan í holu. Stálþilin verða svo skilin eftir en það verður skorið ofan af þeim þannig að þau munu ekki sjást,“ bætir hann við.
Vonast er til þess að verkið gangi fljótt og örugglega fyrir sig og valdi þannig sem minnstu ónæði. Gassi segir að farið verði eftir ýtrustu kröfum bæði hvað varðar öryggi og umhverfisáhrif.