Fimm hjúkrunarfræðingar á gjörgæsludeild Landspítalans í Fossvogi eru smitaðir af kórónuveirunni. Þeir voru allir saman á vakt og eru nú allir í sóttkví. Þetta kom fram í máli Ölmu Möller landlæknis á blaðamannafundi vegna kórónuveirunnar sem haldinn var í dag.
Um er að ræða tvo hjúkrunarfræðinga sem smituðust í skíðaferð, en annar þeirra kom á eina vakt og þar hafa sennilega komið til þrjú smit, að sögn Ölmu. Hjúkrunarfræðingurinn sinnti ekki sjúklingum á þeirri vakt.
Búið er að rekja smitin og farsóttanefnd hefur farið yfir stöðu mála. Ákveðið var að grípa til þeirra aðgerða að skipta upp gjörgæsludeildinni og fækka opnum rúmum. Mönnun á deildinni hefur jafnframt verið tryggð.
Alma segir þetta koma til með að hafa áhrif á starfsemi deildarinnar, en meðal annars mun þurfa að flytja fleiri sjúklinga á gjörgæsludeildina á Hringbraut. „Þetta er sviðsmynd sem upp gat komið, að það komi upp smit á mikilvægum deildum. Þá þarf auðvitað að bregðast við því. Það eru margar aðgerðir sem hægt er að grípa til umfram það sem þegar er búið að gera. Það er hægt að fresta heilbrigðisþjónustu, eins og skurðaðgerðum sem geta beðið, en þó þurfi að fresta einhverri þjónustu þá viljum við biðja fólk um að neita sér ekki um þjónustu sem er nauðsynleg. Forgangsröðun er mjög mikilvægt tæki í svona faraldri,“ segir Alma.