Halla Gunnarsdóttir og Már Erlingsson hafa verið í sóttkví þar til í dag eftir skíðaferð til Ítalíu í febrúar. Þau fögnuðu sóttkvíarlokunum með galakvöldi á heimili sínu í gær og segja ekkert annað í stöðunni fyrir fólk í sömu stöðu en að vera jákvætt og njóta.
Halla og Már voru ásamt vinum sínum á skíðum í Cortina og flugu heim frá Verona 22. febrúar.
„Okkur fannst alltaf mjög skrítið að við vorum 14 saman í 200 manna vél frá Verona og bara við vorum sett í sóttkví,“ segir Halla.
„Við vorum 14 saman og það væri sennilega hægt að skrifa heila bók úr Messenger-þræðinum okkar. Þegar við vorum öll sett í sóttkví þurfti náttúrulega að ræða málin og svona.“
Hópurinn kom til landsins laugardaginn 22. febrúar og Halla og Már fóru bæði til vinnu á mánudeginum. Það var svo á miðvikudeginum eftir heimkomuna að þau fengu skilaboð um að fara í sóttkví sem lauk í gær, 7. mars.
„Á þriðjudeginum fór ég eiginlega í sjálfskipað sóttkví. Ég er að vinna í grunnskóla og hafði sjálf samband við heilsugæsluna. Þá var þetta svo nýtt að þetta var ekki alveg á hreinu þannig ég fór bara í leyfi frá vinnustaðnum mínum. Svo var hringt í okkur bæði á miðvikudeginum frá sóttvarnarlækni og ákveðið að við færum í sóttkví,“ segir Halla.
Til að fagna sóttkvíarlokunum héldu Halla og Már galagleði heima hjá sér í gærkvöldi.
„Við ákváðum bara tvö að hafa galakvöld hérna heima hjá okkur. Fórum í sparifötin og kveiktum á danstónlist og svona. Hugmyndin er nú stolin. Hún kemur frá vinkonu minni sem er líka í sóttkví og sendi mér mynd af sér í fínum kjól og svona og ég hugsaði bara auðvitað!“ segir Halla.
„Við erum frelsuð núna. Það er auðvitað léttir, að geta skroppið í búðina og svona,“ segir Halla.
„En í sjálfu sér er þetta ekkert mál,“ segir Már. „Þú ert bara heima hjá þér, við erum bæði fullfrísk. Ég hef bara getað unnið heiman frá mér svo maður hefur ekki yfir neinu að kvarta. Þetta er bara eitthvert kerfi sem grípur mann og við erum klukkuð í þetta og maður tekur því bara.“
„Við höfum talað um það alveg frá upphafi þessi hópur að sóttkvíin sé gjöf. Það er svo margt sem þú getur séð jákvætt við þetta,“ segir Halla.
„Þessi hópur stillti sig bara inn á það og það var enginn sem fékk að komast upp með það að vera með einhver leiðindi. Sérstaklega ef þú ert fullfrískur, þetta er bara gjöf og ekkert annað,“ bætir Már við.
Á morgun hverfa Halla og Már svo aftur til fyrra lífs og fara í vinnuna.
„Ég held ég hafi sjaldan hlakkað jafn mikið til að mæta í vinnuna,“ segir Már hlæjandi.
„Við erum pínu að spá í því hvernig fólk tekur okkur. Ég vona að við verðum ekki eins og geislavirk,“ segir Halla. „Nei við erum búin að leggja okkar að mörkum. Við erum búin að vera frísk allan tímann og eigum að vera laus við þetta. Það er frekar að við smitumst af einhverjum. Það er bara samfélagsleg ábyrgð að afplána þetta. Maður þarf bara að leysa þetta, það er ekkert öðruvísi.“
Halla og Már segja bæði að mikilvægt sé að hugsa í lausnum.
„Það er engum vorkunn af þessu. Það eru mörg störf sem hægt er að sinna að heiman og ég hef náð að taka þátt í fundum og hvað annað,“ segir Már.
„Ég get náttúrulega ekki kennt en hef náð að undirbúa og búa til verkefni og svona sem er frábært. Stundum er maður alveg á kafi að reyna að komast yfir það í vinnunni þannig að strákurinn minn sagði bara að þetta væri bara eins og 10 skipulagsdagar. Það er bara frábært,“ segir Halla.
„Eina vitið er bara að vera jákvæður og skilaboð okkar til fólks í sóttkví er bara njótið hverrar mínútu. Maður verður bara að taka þetta á þeim nótum,“ bætir hún við.