Mikilvægt að gera ekki lítið úr hlutunum

Kórónuveiran lítur svona út.
Kórónuveiran lítur svona út. AFP

Íslenskur sérnámslæknir segir ummæli norska prófessorsins Ørjan Olsvik um kórónuveiruna sem veldur öndunarfærasjúkdómnum COVID-19 vafasöm. Segir hann mikilvægt að gera ekki lítið úr veirunni á sama tíma og skynsemi sé gætt í upplýsingamiðlun til almennings. 

Olsvik, prófessor í læknisfræðilegri örverufræði við Háskólann í Tromsø, gagnrýndi Lýðheilsustofnun Noregs fyrir að draga upp mun dekkri mynd af kórónuveirufaraldrinum en efni standi til og valda Norðmönnum þar með óþarfa ótta og skelfingu, eins og greint var frá á mbl.is í gær.  

Sagði Olsvik að veirufaraldrar væru alla jafna ekki eins skæðir og fólk gerði ráð fyrir, hvort sem þar færu HIV, SARS, ebóla eða svínaflensa. Þá segir hann kórónuveiruna vægari en hefðbundna flensu. 

Jón Magnús Jóhannesson, sérnámslæknir á Landspítalanum, segir ummæli Olsvik vafasöm. 

„Hann ber þetta bæði saman við svínaflensuna og hefðbundnu flensuna. Hann segir að þetta sé vægara en hefðbundna flensan en það er ekkert sem bendir til að það sé rétt. Það í rauninni bendir allt til þess að þessi veira sé alvarlegri og þess vegna er fólk réttilega svolítið hrætt við hana,“ segir Jón í samtali við mbl.is. 

„Það er engin leið að segja að þetta sé vægara en flensan. En síðan er hann að bera þetta saman við ástandið vegna svínaflensunnar á sínum tíma þegar það var mikið fjaðrafok og áætlanir um andlát vegna hennar gerðar og vissulega reyndust andlát vegna svínaflensunnar ekki vera jafn mörg og fyrst var talið en að hluta til er ástæða þess að það voru mjög sterk viðbrögð ýmissa þjóða varðandi bólusetningar, smitvarnir og fleira sem auðvitað minnkar fjölda andláta út af fyrir sig,“ segir Jón. 

HIV enn skæður faraldur

Segir Jón að þrátt fyrir að fáir hafi hlutfallslega látist af völdum svínaflensunnar sé ekki hægt að segja að mikill viðbúnaður yfirvalda hafi verið óþarfur. Það sé einmitt frekar miklum viðbúnaði að þakka að betur fór en á horfðist. 

Jón segir Olsvik í raun að vissu leyti gera lítið úr veirufaröldrum sem hafa dregið milljónir manna um allan heim til dauða. 

„Hann segir að það sé varla talað um HIV í dag sem er bara ekki rétt, það er mjög mikið talað um HIV í dag. Það er enn þá einn af stærstu smitsjúkdómum sem talað er um erlendis. Það er að sjálfsögðu í dag hægt að fá meðferð og það gengur vel en það þarf að lágmarka þann fjölda sem þarf að fá meðferð við HIV alla sína ævi. Svo í öðru lagi er náttúrulega mikill fjöldi sem hefur ekki aðgengi að viðeigandi meðferð svo það eru enn þá um 770.000 manns sem deyja á hverju ári úr alnæmistengdum veikindum svo það er alveg klárlega enn þá verið að tala um HIV,“ segir Jón. 

„HIV-faraldurinn er viðvarandi og enn þá í gangi núna og er skæðasti, kostnaðarsamasti og alvarlegasti faraldurinn í okkar samtímasögu. HIV vissulega var jafn alvarlegur faraldur og gert var ráð fyrir og er enn þá risastórt vandamál á heimsvísu.“

Ekki einungis viðkvæmir hópar í hættu

Þá segir Jón það ekki vera rétt hjá Olsvik að ungir og heilbrigðir einstaklingar geti ekki dáið úr öndunarfærasjúkdómnum COVID-19. 

„Það er bara ekki rétt. Það eru hraustir, ungir einstaklingar að deyja, það er bara miklu ólíklegra en það er samt sem áður að gerast. Það er sjaldgæft en það gerist og það má ekki gleyma þeim bara til þess að reyna að minnka hræðslu hjá fólki því þetta er samt raunveruleikinn.“

Jón segir að enn sé mikil óvissa í kringum kórónuveirufaraldurinn. Það megi þó ekki gera lítið úr honum. Þá segir hann ekki viðeigandi að segja að stjórnvöld ali á ótta heldur telur hann þvert á móti upplýsingamiðlun stjórnvalda byggja á skynsemi. Það sé ekki óeðlilegt að stjórnvöld í Noregi séu undir það búin að allt fari á versta veg. 

Jón Magnús Jóhannesson læknir ásamt dóttur sinni.
Jón Magnús Jóhannesson læknir ásamt dóttur sinni. Ljósmynd/Aðsend

„Allt bendir til að þetta sé alvarlegra en flensa, að þetta sé mjög smitandi og geti valdið dauða hjá ungum og hraustum einstaklingum þó að það sé sjaldgæft. Þetta eru atriði sem þarf að hafa í huga og vita af án þess að það valdi óskynsamlegum ótta. Þetta er spurning um að meta tölfræðina á skynsamlegan hátt. Það er á okkar ábyrgð að takmarka þetta, bæði fyrir þá sem eru hraustir og þá sem eru viðkvæmari.“

„Það má ekki draga úr þessu því þá fer fólk að hafa meiri áhyggjur og bera minna traust til stjórnvalda og það hefur sýnt sig að þegar fólk ber ekki traust til stjórnvalda ganga aðgerðir til að takmarka útbreiðslu svona veiru verr. Á svona tímum þarf að styrkja samband almennings og stjórnvalda frekar en að veikja þann grunn enn frekar til þess að tryggja að sem fæstir veikjast og að sem fæstir deyja.“

Enn mikil óvissa

Jón segist sammála því að ótti sé ekki gagnlegur í svona aðstæðum. 

„Ótti er auðvitað er ekki skynsamlegur, en ég tel stjórnvöld hafa verið bara nokkuð skynsöm í sínum leiðbeiningum til borgara um að vera ekki að tæma verslanir og fleira slíkt heldur höfða frekar til skynsemi fólks, segja þeim sem eru veikir að vera bara heima.“

Jón segir að vel gæti verið að kórónuveiran reynist ekki jafn skæð og fólk hefur haldið hingað til. Það sé þó með öllu óvíst á þessum tímapunkti og betra sé að búast við hinu versta en að gera lítið úr hættunni.

„Það er lykilatriði að á þessu stigi er enn þá mikil óvissa um hvernig þetta mun þróast og hve margir munu deyja. Það sem við vitum hingað til er að dánartíðnin alls staðar hefur verið hærri en vegna hefðbundinnar flensu. Í öðru lagi vitum við líka ekki hvað komi til með að breytast svo við ættum frekar að gera ráð fyrir því að hún sé hættulegri en ella. Kannski kemur í ljós að hún sé það ekki, en í þessari óvissu sem við erum í núna ættum við að gera ráð fyrir því. Við getum takmarkað fjölda sýktra og af hverju ekki þá að bregðast þannig við?“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert