Erum að grípa til mjög harðra aðgerða

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Eins og allir sjá þá eru hraðar sviptingar í stöðunni, bæði á heimsvísu og í Evrópu. Þær snúast bæði um útbreiðslu veirunnar en líka um áhrif á efnahagslega þætti og ferðir fólks og svo framvegis. Við metum þetta frá degi til dags og ríkisstjórnin ræðir þetta væntanlega á sínum fundi á morgun eins og hún hefur gert á hverjum fundi síðan veiran kom fyrst upp,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra spurð hvort nýjustu tíðindi frá Ítalíu muni hafa áhrif á aðgerðir stjórnvalda hérlendis.

Á Ítalíu sæta allir sem þar dvelja eins konar sóttkví frá og með morgundeginum. Allar ferðir á milli staða sem eru ekki vegna vinnu eða neyðar verða bannaðar, allar almenningssamkomur sömuleiðis og hefur skólum verið lokað til 3. apríl næstkomandi. 

Vegna banns­ins þarf að loka kvik­mynda­hús­um, leik­hús­um, lík­ams­rækt­ar­stöðvum, skemmtistöðum, bör­um og af­lýsa út­för­um, brúðkaup­um og öll­um íþróttaviðburðum, þar á meðal leikj­um í efstu deild knatt­spyrn­unn­ar á Ítalíu.

Dýrmætt að okkur takist að hefta útbreiðsluna

„Við erum í raun og veru alltaf að ræða næstu skref við sóttvarnalækni og almannavarnir. Aukningin hér innanlands hefur fyrst og fremst verið fólk sem hefur smitast af þeim sem hafa komið af skíðasvæðunum svo ennþá höfum við ekki séð það sem kallað er samfélagssmit í stórum stíl. Það er auðvitað mjög dýrmætt að okkur takist að hefta útbreiðsluna og það er nokkuð sem allar okkar aðgerðir miða að. Síðan náttúrlega að bregðast við því sem varðar ferðaþjónustuna hér og svo almennt fyrir efnahagslífið.“

Spurð hvort aðgerðir hérlendis séu ekki of vægar miðað við þær aðgerðir sem gripið hefur verið til á Ítalíu og í Ísrael, þar sem öllum sem koma til landsins er gert að sæta sóttkví í tvær vikur eftir komuna til landsins, segir Svandís:

„Við erum að grípa til mjög harðra aðgerða á Íslandi miðað við það sem gengur og gerist í löndunum í kringum okkur. Við gripum til þeirra umsvifalaust. Við erum að prófa þá sem eru að koma heim frá þessum svæðum mjög mikið, við erum að tryggja sóttkví þeirra sem hafa verið að umgangast það fólk. Við höfum mjög þétt utanumhald utan um sóttrakningu svo við erum að beita mjög afgerandi aðgerðum á Íslandi. Ég vonast til þess að það verði til að hjálpa okkur að ná árangri á Íslandi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert