Fjögur ný tilfelli af COVID-19-sjúkdómnum voru greind á sýkla- og veirufræðideild Landspítala nú í morgun. Heildarfjöldi tilfella er því 85.
Þetta staðfestir Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn í samtali við mbl.is.
Nýju tilfellin tengjast öll ferðalögum fólks til skíðasvæða í Ölpunum. Tvö nýju smitanna má rekja til Sviss og hin tvö til Austurríkis.
Víðir segir að hugsanlega sé hægt að tengja tvö smit sem voru staðfest í gær við Sviss.
Hann segir að verið sé að rekja smit en eitthvað á sjöunda hundrað manns er í sóttkví. Alls hafa 739 sýni verið tekin í heild.
Enginn sem smitaðist af veirunni er á sjúkrahúsi en Víðir segir að sérstaklega vel sé fylgst með nokkrum sem eru veikir heima.