Hagsmunasamtök heimilanna hafa lýst yfir óánægju sinni með að ríkisstjórnin minntist ekkert á heimilin í landinu þegar hún kynnti efnahagsaðgerðir sínar vegna kórónuveirunnar.
„Þetta er því miður sama hugarfarið og einkenndi aðgerðir stjórnvalda í kjölfar hrunsins, þar sem ekkert var gefið eftir gagnvart heimilunum sem voru látin taka á sig höggið af fullum þunga og með skelfilegum afleiðingum. Það má alls ekki endurtaka sig,“ segir í tilkynningu frá samtökunum.
„Þá, eins og nú, hafði ríkisstjórn Íslands samráð við Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) um „lausnir” og nú eins og þá, hunsar hún algjörlega fulltrúa heimilanna.“
Fram kemur að samtökin þurfi ekki síður að koma að borðinu en SFF og jafnvel enn frekar.