Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, hefur skipað starfshóp um ræktun og nýtingu orkujurta, svo sem repju. Verkefni hópsins er að kanna forsendur fyrir stórtækri og sjálfbærri ræktun orkujurta á Íslandi til framleiðslu á lífdísil og öðrum afurðum, t.d. fóðurmjöli, áburði og stönglum. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef ráðuneytisins.
Haft er eftir Sigurði í tilkynningunni að efling akuryrkju, ræktun orkujurta og nýting repjuolíu geti dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda á margvíslegan hátt. Segir hann rannsóknir sýna að hægt sé að framleiða hér á landi lífdísil úr repjuolíu sem nýta megi sem eldsneyti á þorra þeirra véla sem gerðar eru fyrir dísilolíu úr jarðolíu.
Samgöngustofa og þar á undan Siglingastofnun hefur um langt skeið unnið að rannsóknum á ræktun orkujurta á Íslandi og nýtingu þeirra. Gerðar hafa verið tilraunir með repjuræktun sem hafa gefist vel. Tilraunir Samgöngustofu benda til þess að repjudísill gefi við brennslu sambærilega orku og hefðbundin dísilolía.
Bent er á í tilkynningunni að stór markaður sé fyrir repjuolíu sem lífdísil, en íslenski fiskiskipaflotinn brennir til dæmis árlega alls um 160 þúsund tonnum af dísilolíu. Reynslan hefur sýnt að hver hektari lands í repjurækt gefur af sér um eitt tonn af repjuolíu. Miðað við 10% íblöndun þyrfti því að rækta repju á um 16.000 hekturum lands.
Í starfshópnum sitja Ingveldur Sæmundsdóttir, aðstoðarmaður ráðherra og formaður hópsins, dr. Gylfi Árnason, prófessor við Háskóla Íslands, Hlín Hólm frá Samgöngustofu, Jón Bernódusson frá Samgöngustofu, Jón Þorsteinn Gunnarsson frá Fóðurblöndunni, Ólafur Eggertsson, bóndi á Þorvaldseyri, Sandra Ásgrímsdóttir frá Mannviti og Sigurbergur Björnsson, skrifstofustjóri samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins.
Starfshópurinn mun skila tillögum og drögum að aðgerðaáætlun fyrir lok september á þessu ári.