Steypubílnum stolið í morgun

Steypubílnum sem lögregla veitti eftirför frá Laugavegi og út á grasbala og hjóla- og göngustíga á Sæbraut var stolið frá Vitastíg í morgun, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Steypubíllinn var fullur af steypu á leið til vinnu á horni Vitastígs og Laugavegar þegar karlmaður tók hann rúmlega níu í morgun og ók af stað.

Hann ók niður Laugaveginn, Sæbrautina og eftir gangstéttum, grasbölum og hjólastígum. Lögregla króaði manninn af við Holtagarða. 

„Það er mikil mildi að ekki fór verr,“ segir Guðmundur Páll Jónsson lögreglufulltrúi. Maðurinn var undir áhrifum fíkniefna eða lyfja þegar hann stal bílnum og lögregla ræðir við hann þegar ástand hans verður betra.

Samkvæmt tilkynningu frá lögreglu skapaðist mikil hætta þegar steypubílnum var stolið við nýbyggingu á Vitastíg og honum ekið niður Laugaveg, Bankastræti, um Lækjargötu og eftir Sæbraut uns bifreiðin stöðvaðist nálægt Kleppsvegi þar sem eftirförinni lauk.

Lögreglan var með mikinn viðbúnað vegna málsins, en ökumaðurinn, karlmaður um þrítugt, virti öll stöðvunarmerki að vettugi og setti bæði sjálfan sig og aðra vegfarendur í mikla hættu með þessu framferði, en hann ók m.a. á röngum vegarhelmingi meðan á þessu stóð. Ökumaðurinn var handtekinn á vettvangi og fluttur á lögreglustöð.

Ökumaður steypubílsins ók á móti umferð og upp á hjólastíg …
Ökumaður steypubílsins ók á móti umferð og upp á hjólastíg og gangstétt við Sæbraut. Lögregla veitti bílnum eftirför. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert