„Það er greinilega talsverð traffík inn á síðuna, en ég veit meira um það í fyrramálið,“ segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, í samtali við mbl.is í kvöld. Að því er fram kemur á vefsíðunni bokun.rannsokn.is, þar sem einstaklingar geta pantað tíma í skimun fyrir kórónuveirunni, eru engir lausir tímar.
Kári segist ekki vilja tjá sig frekar um málið, en ástæður að baki framangreindra aðstæðna ættu að liggja fyrir í fyrramálið. Ráðgera má að uppbókað sé í skimun næstu daga.
Íslensk erfðagreining hyggst hefja skimanir fyrir kórónuveirunni á morgun. Að sögn Kára er markmiðið með skimununum að kanna dreifingu veirunnar í samfélaginu. Því væri reiknað með að sýni yrðu tekin svo til af handahófi en ekki úr þeim sem sýndu einkenni sjúkdóms.