Ragnhildur Þrastardóttir
Ferðabannið sem bandarísk yfirvöld hafa sett á Evrópu vegna útbreiðslu kórónuveirunnar mun hvorki hafa áhrif á vöruflutninga hingað til lands né útflutning frá Íslandi til Bandaríkjanna. Þetta segir María Mjöll Jónsdóttir, deildarstjóri hjá utanríkisráðuneytinu. Eins og áður hefur komið fram nær ferðabannið meðal annars til Íslands.
„Eins og staðan er núna hefur þessi ákvörðun ekki áhrif á vöruflutninga en eins og við vitum þá getur staðan breyst alls staðar í öllum löndum hratt og mikið,“ segir María.
Ferðabannið nær ekki til Bretlands. Spurð hvort það sé ekki óeðlilegt að sumar þjóðir fái að ferðast til Bandaríkjanna en ekki aðrar segir María:
„Þetta eru aðgerðir sem þau hafa ákveðið að grípa til en við höfum mótmælt þeim hvað okkur varðar en að öðru leyti tjáum við okkur ekki sérstaklega ekki um það hvernig þeirra aðgerðir eru ákveðnar, út frá hvaða sjónarmiðum.“
Að sögn Maríu hefur utanríkisráðuneytið einungis upplýsingar um að fjórir Íslendingar séu í sóttkví erlendis. Þar er er um að ræða Íslendinga í Víetnam sem mbl.is ræddi við fyrr í vikunni. Þeir Íslendingar sem voru í sóttkví á Tenerife eru komnir heim.