Á ríkisstjórnarfundi í kvöld var frumvarp til laga um frestun gjalda rætt, frumvarp sem mun „alveg örugglega gagnast Icelandair“, að sögn Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra. Hún óskaði seinnipartinn í dag eftir fundi með Donald Trump, Bandaríkjaforseta, vegna ferðabanns Bandaríkjanna sem nær til Íslands og mun hafa áhrif á fjölda flugferða Icelandair. Engin svör við beiðninni hafa borist.
Katrín segir í samtali við blaðamann að hún eigi von á að frekari takmarkanir verði settar á í samfélaginu vegna kórónuveirunnar.
„Það sem við vorum að ræða á þessum fundi var frumvarp til laga um frestun gjalda sem verður lagt fyrir Alþingi á morgun. Þetta er auðvitað aðgerð sem við vorum búin að boða fyrr í vikunni en vegna atburða næturinnar þá ákváðum við að drífa hana af. Með frumvarpinu erum við í raun að veita ríkissjóði heimild til að gefa fyrirtækjum frest á því að standa skil á ákveðnum gjöldum. Þetta verður rætt á þingfundi á morgun svo við erum lögð af stað í það að reyna að létta fyrirtækjum róðurinn í gegnum þennan skafl.“
Spurð hvort niðurfelling skólahalds og lokanir stofnana séu fyrirhugaðar á næstu dögum segir Katrín:
„Það var engin ákvörðun tekin um það á þessum fundi en þetta er að sjálfssögðu búið að vera á borðinu hjá heilbrigðisyfirvöldum. Við eigum alveg von á því að það verði einhverjar frekari takmarkanir settar.“
Í kjölfar ríkisstjórnarfundarins sem tók enda um klukkan hálf tíu í kvöld fóru formenn stjórnarflokkanna á þingflokksfundi sem standa nú yfir. Er það vegna áðurnefnds frumvarps.