Jarðskjálfti reið yfir á Reykjanesi nú klukkna 10:25 í dag. Fannst skjálftinn á Reykjanesi, á höfuðborgarsvæðinu og uppi í Borgarnesi.
Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni var skjálftinn 5,2 að stærð og eru það yfirfarnar tölur.
Upptök hans voru 5,4 km vestur af Fagradalsfjalli, eða norðvestur af Grindavík, og varð hann á 5,2 km dýpi.
Annar skjálfti upp á 3 stig reið yfir klukkan 10:15 og hafa 37 aðrir skjálftar hafa mælst á svæðinu nú frá hálftíu í morgun.
„Þetta var rosalegur kippur, ég er hérna á 4. hæð í blokk og húsið sveiflaðist eins og í amerískum bíómyndum,“ segir Hilmar Bragi Bárðarson, ljósmyndari Víkurfrétta, sem staddur var heima hjá sér í fimm hæða blokk í Reykjanesbæ þegar jarðskjálftinn reið yfir.
„Þetta stóð yfir í nokkrar sekúndur en manni fannst eins og þetta ætlaði aldrei að stoppa,“ sagði Hilmar Bragi.
„Skjálftinn átti sér stað um fjóra kílómetra norðnorðastur af Grindavík, á svipuðum slóðum og landrisið varð um daginn,“ segir skjálftafræðingur í samtali við mbl.is og bætir við:
„Nokkrir minni eftirskjálftar hafa mælst, sá stærsti var 3,5 að stærð. Það er of snemmt að segja til um hvaða þýðingu þetta hefur eða við hverju við megum búast. Við erum enn að fara yfir þennan stóra skjálfta.“
Veðurstofan hefur kallað út aukamannskap.
Fréttin hefur verið uppfærð.
Upphaflega sögðu tölur Veðurstofunnar að skjálftinn hefði verið 4,3 stig að stærð, en samkvæmt uppfærðum tölum var stærð hans 5,2 stig. Hefur fréttin verið uppfærð eftir því.