Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hefur skipað Sigríði Björk Guðjónsdóttur í embætti ríkislögreglustjóra frá og með 16. mars næstkomandi. Frá þessu er greint á vef stjórnarráðsins.
Hæfnisnefnd sem skipuð var til að fara yfir og meta hæfni umsókna um embætti ríkislögreglustjóra mat Sigríði hæfasta umsækjenda.
Auk Sigríðar sóttu Arnar Ágústsson öryggisvörður, Grímur Grímsson, tengslafulltrúi Íslands hjá Europol, Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á Norðurlandi eystra, Kristín Jóhannesdóttir, lögfræðingur, Logi Kjartansson, lögfræðingur og Páll Winkel, fangelsismálastjóri, um stöðuna. Nefndin mat fjóra hæfa til að gegna embættinu; Sigríði Björk, Höllu Bergþóru, Loga Kjartansson og Pál.
Greint var frá því í byrjun desember að Haraldur Johannessen myndi hætta störfum um áramót. Dómsmálaráðherra sagði starfslok hans vera í góðri sátt, en bæði hún og hann hefðu komist að þeirri niðurstöðu að kominn væri tími til þess fá nýjan mann í embættið.
Kjartan Þorkelsson hefur gegnt starfi ríkislögreglustjóra frá áramótum. Til stóð að nýr ríkislögreglustjóri tæki við 1. mars en tafir urðu á ráðningunni.
Sigríður hefur frá árinu 2014 gegnt embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Áður en Sigríður tók við embætti lögreglustjórans á Höfuðborgarsvæðinu gegndi hún embætti lögreglustjóra á Suðurnesjum, þar áður var hún aðstoðarríkislögreglustjóri frá 2007 til 2008, sýslumaður á Ísafirði 2002-2006 og skattstjóri Vestfjarða frá 1996 til 2002.