Til skoðunar er að fella tryggingagjald og gistináttaskatt niður tímabundið til þess að styðja við ferðaþjónustufyrirtæki og mannaflsfrek fyrirtæki, að sögn Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra. Niðurfelling tryggingagjalds hefur þó sína ókosti, að sögn Bjarna.
Sömuleiðis eru uppi á borðinu hugmyndir um frestun á staðgreiðsluskatti launa og úrræði sem varða atvinnurekendur með marga starfsmenn sem þurfa að draga úr mannafla.
Bjarni segir að engin beiðni um aðstoð hafi borist frá Icelandair vegna ferðabanns Bandaríkjanna sem nær til Íslands og hefur því áhrif á fyrirtækið.
„Við erum að tala um fyrirtæki sem er skráð á markað og þarf sjálft að gera grein fyrir sínum áformum. Það eina sem ég get sagt er að við höfum enga slíka beiðni fengið en ég er hins vegar alveg ófeiminn við að segja það að við lítum á það sem okkar frumskyldu að tryggja greiðar samgöngur til og frá landinu og vissulega er þetta fyrirtæki sem skiptir hvað mestu máli í því samhengi.“
Ríkisstjórnin kynnti fyrirhugaðar aðgerðir sínar vegna kórónuveirunnar í vikunni. Þá greindi Bjarni frá því að mögulega yrði gripið til ráðstafana sem örvað gætu einkaneyslu. Spurður hvernig slíkt yrði útfært segir Bjarni:
„Þar er hægt að sjá margt fyrir sér, í fyrsta lagi er áhyggjuefni að það fellur niður eftirspurn þegar það eru ekki á ferðinni mörg hundruð þúsund ferðamenn sem við áður gerðum ráð fyrir. Á sama tíma standa heimilin nokkuð sterkt. Kaupmáttur á Íslandi er með því mesta sem þekkist svo það er í sjálfu sér ekki augljós þörf fyrir að auka kaupmátt heimilanna. Það geta þó auðvitað verið dæmi um sjálfstætt starfandi aðila, svo dæmi sé tekið, sem tapa tekjum sem gætu notið góðs af úrræðum eins og úttekt með skattgreiðslum af séreignarsparnaði. Aðrar lækkanir á sköttum gætu tímabundið komið til greina ef við mætum það sem svo að þær myndu skipta máli fyrir einkaneysluna.“
Á meðal aðgerða sem ríkisstjórnin hefur kynnt er niðurfelling á tekjuöflun sem er íþyngjandi fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu. Spurður hvað það þýði segir Bjarni:
„Við tölum almennt um niðurfellingu á sköttum og gjöldum sem eru íþyngjandi fyrir ferðaþjónustufyrirtæki en við vitum um leið að það verða mun fleiri en þau sem falla undir skilgreininguna ferðaþjónustufyrirtæki sem verða fyrir áhrifum þannig að við erum bara að leggja mat á það í samtali við atvinnulífið, hvað það er sem kann að koma til greina. Gistináttaskatturinn er augljóslega sá skattur sem snertir fyrirtæki í ferðaþjónustu sérstaklega. Við erum í miðri vinnu við að skoða útfærslur á öðru. Tryggingagjaldið er þar undir, það væri mjög breið aðgerð og ég hef ákveðnar efasemdir um það hversu hnitmiðuð aðgerð það væri.“
Þannig að þið eruð líka að skoða niðurfellingu tryggingagjalds?
„Tímabundið. Það gæti komið til álita en það er ekki tímabært að tala sig um það, við viljum líka eiga samtal við greinina.“