Halda áætlun þrátt fyrir aðgerðir Danmerkur

„Eins og staðan er núna er ennþá flug á áætlun hjá okkur á morgun og það hafa engar breytingar verið gerðar,“ segir Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, spurð um áhrif ákvörðunar danskra stjórnvalda um að loka landamærum Danmerkur að öllu leyti eða hluta.

Mette Frederik­sen, for­sæt­is­ráðherra Dan­merk­ur, til­kynnti ákvörðun stjórn­valda á blaðamanna­fundi fyrr í kvöld en lokun landamæranna tekur gildi á hádegi á morgun. 

Tvær ferðir til og frá Kaupmannahöfn eru á áætlun hjá Icelandair á morgun, önnur fyrir hádegi og hin eftir hádegi. Hvorugri ferðinni hefur verið aflýst og segir Ásdís að Icelandair hafi ekki fengið neinar formlegar upplýsingar vegna lokunar landamæranna.

„Þetta er náttúrlega eitthvað sem við vorum bara að fá fréttir af. Við erum ekki komin með nánari upplýsingar um það hvernig ferðabanninu verður framfylgt. Við verðum bara að taka stöðuna þegar við erum komin með nánari upplýsingar og spila þetta eftir eyranu áfram.“

Fljúga tvisvar til þrisvar á dag til Kaupmannahafnar

Icelandair flýgur tvisvar til þrisvar til Kaupmannahafnar og til baka daglega. Flugfélagið hefur óskað eftir ítarlegri upplýsingum frá dönskum stjórnvöldum vegna lokunar landamæranna.

„Það hefur bara sinn gang en við erum ekki komin með nákvæmar upplýsingar um það hvernig þessu verði framfylgt,“ segir Ásdís.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert