Fundi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra með Mike Pompeo, starfsbróður sínum frá Bandaríkjunum, hefur verið aflýst. Til stóð að þeir myndu funda í Washington D.C., höfuðborg Bandaríkjanna, á fimmtudag til að ræða ferðabann bandarískra stjórnvalda sem lagt hefur verið á Ísland og önnur ríki Schengen-samstarfsins.
Í samtali við mbl.is segir Guðlaugur að bandarísk stjórnvöld hafi aflýst öllu fundahaldi með erlendum ráðamönnum og sé ástæða þess umrætt ferðabann.
Guðlaugur hafði upphaflega óskað eftir símafundi með Pompeo til að koma á framfæri sjónarmiðum Íslands vegna ferðabannsins en var í staðinn boðið til fundar í Washington. „Ég var að sjálfsögðu reiðubúinn að fara til fundar,“ segir Guðlaugur en bætir við að hann hafi nú óskað eftir símafundi að nýju.
Meðal þeirra sjónarmiða Íslands sem til stóð að ræða við Pompeo var það ósamræmi sem fælist í að meina Íslendingum að ferðast til Bandaríkjanna, en ekki íbúum Írlands og Bretlands sem væru einnig eyjur, segir Guðlaugur Þór, en bætir við að þau rök eigi ekki lengur við eftir að Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti að ríkjunum tveimur hefði verið bætt á listann yfir bannríki. „En við vöktum athygli á því að við höfum verið hér með aðgerðir [gegn kórónuveirunni] síðan 27. janúar.“
Bandaríkjamenn voru fyrsta ríkið til að setja ferðabann á Íslendinga vegna útbreiðslu veirunnar, en síðan hafa fleiri ríki fylgt í kjölfarið svo sem Danir, Norðmenn og Víetnamar. Spurður hvort íslensk stjórnvöld hafi einnig komið á framfæri mótmælum við stjórnvöld þeirra ríkja segir Guðlaugur: „Það gildir um alla vini okkar, hvort sem það eru Bandaríkjamenn eða Norðurlöndin, að við höfum gert athugasemdir við það þegar menn hafa ekki rætt neitt við okkur og við höfum þurft að lesa um þetta í fjölmiðlum.“
Þannig hafi Guðlaugur rætt við danskan starfsbróður sinn og gert athugasemdir við að hafa ekki verið látinn vita fyrir fram. „Hann baðst velvirðingar á að það hefði ekki komist áleiðis en svo virðist sem hann hafi gefið fyrirmæli um það, sem komust ekki til skila. En það gildir um öll ríki að við komum okkar sjónarmiðum á framfæri.“