„Kórónuveiran er að verða gengin yfir og lífið að komast í eðlilegt horf á ný,“ segir Snorri Sigurðsson, framkvæmdastjóri hjá Arla Foods í Kína.
Um 100 manns starfa hjá Arla Foods og segir Snorri um helminginn snúinn aftur til vinnu frá og með þessari viku; fleiri bætast svo í hópinn í þeirri næstu, að því er fram kemur í SunnudagsMogganum í dag.
„Andrúmsloftið í Peking er allt annað en það var fyrir nokkrum vikum og almennt gott hljóð í fólki sem maður hittir. Það veit að það versta er yfirstaðið. Hér er því fullkomin ró.“ Ýtrustu varúðar er þó enn gætt og skrifstofuhúsnæðið hjá Snorra er sótthreinsað þrisvar á dag.