600 manns í einu í IKEA

Samkomubann vegna faraldurs kórónuveirunnar hefur mikil áhrif á verslun og í morgun var víða byrjað að telja inn og út úr verslunum. Í stórverslun IKEA er búið að skilgreina sex meginsvæði þar sem 100 manns geta verið hverju sinni, 600 manns í heildina. Þar hafa miklar ráðstafanir verið gerðar.

Stefán Rúnar Dagsson, framkvæmdastjóri IKEA á Íslandi, segir ólíklegt að hér muni verða einhver vöruskortur vegna faraldursins. Sú framleiðsla sem hafi stöðvast um tíma í Kína sé nú tekin til að skila af sér vörum að nýju. Þó sé framleiðsla víða annars staðar, t.a.m. í Eystrasaltslöndum og A-Evrópu, og þar eigi áhrifin eftir að koma í ljós.

Miklar ráðstafanir hafa verið gerðar í versluninni í Garðabæ. Borðum og stólum á veitingastað hefur verið fækkað verulega, mikil áhersla er lögð á að sótthreinsa snertifleti á borð við innkaupakerrur og þá hafa verið settar upp merkingar sem minna fólk á reglur í samkomubanninu.

Hann segir að aldrei hafi komið til greina að loka versluninni um tíma á meðan faraldurinn gengur yfir. „Við mátum það þannig að við gætum gert þetta með öllum þessum ráðstöfunum, við teljum okkur geta unnið þetta samkvæmt tilmælum yfirvalda,“ segir Stefán Rúnar í samtali við mbl.is en rætt er við hann í myndskeiðinu í versluninni í dag þar sem lífið gekk sinn vanagang, að mestu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert