Ekkert að gerast á Tenerife

Útgöngubann er í gildi á Spáni og það gildir líka …
Útgöngubann er í gildi á Spáni og það gildir líka um sundlaugar, enda eru þær úti. Ljósmynd/Guðlaugur J. Albertsson

Útgöngubann tók gildi á Spáni klukkan átta í morgun. Íbúum er einungis heimilt að fara út úr húsi til vinnu eða í öðrum nauðsynlegum erindagjörðum, en er annars gert að halda sig heima. Þetta á einnig við um hótel, sem hafa þurft að loka sundlaugum sínum og útivistarsvæðum.

Guðlaugur J. Albertsson hefur verið á Tenerife síðan 10. mars. Í samtali við mbl.is segir hann að lífið hafi gengið sinn vanagang síðustu daga, allt þar til bannið tók gildi í morgun. Nú í morgun fór hann í hótelsundlaugina líkt og fjölmargir gestir. Ekki leið þó á löngu þar til skilaboð bárust um að ekki væri leyfilegt að vera í lauginni. „Núna erum við bara uppi á herbergi,“ segir Guðlaugur en fjölskyldan á flug heim á morgun.

Þar með eru hrakfarirnar þó ekki úr sögunni því Guðlaugur og fjölskylda búa á Tálknafirði. Appelsínugul viðvörun er í gildi á Vestfjörðum út morgundaginn og ósennilegt að Guðlaugur komist akandi heim samdægurs. „Við höfum verið í sambandi við [almannavarnir í] Skógarhlíð og þær eru að skoða þetta,“ segir Guðlaugur.

Hann viðurkennir að það sé margt skemmtilegra en að verja fríinu uppi á hótelherbergi. „Það er ekkert að gerast hérna.“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert