„Þessar upplýsingar eru svolítið misvísandi og það er óljóst hvað þetta þýðir í raun og veru, en almennt veit maður það að einkennalaust fólk smitar minna og síður en það sem er með einkenni,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir spurður út í það sem Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir; að 40 prósent þeirra sem smiti aðra af kórónuveirunni séu einkennalaus.
Sjálfur sagði Þórólfur þegar fyrstu smitin komu upp hér á landi að hann teldi einkennalausa ekki smitandi. Síðar hefur hann þó sagt að einkennalausir séu ólíklegri til að smita aðra, en það geti vissulega gerst.
„Ástæðan er sú að það er meira smitefni sem berst frá fólki með einkenni. Það er grunnurinn að þessum leiðbeiningum. Þýðir það að einkennalaust fólk geti ekki smitað? Nei, það þýðir ekki það. En við lítum svo á í okkar viðbrögðum að fólk með einkenni sé líklegra til að smita en einkennalaust fólk.“ Þórólfur á þar við þær aðgerðir sem gripið hefur verið til hingað til, meðal annars að setja fólk í sóttkví sem líklegt er að hafi verið útsett fyrir smiti.
Kári vísaði til breskra rannsókna sem hefðu sýnt fram á að um 40 prósent smitbera væru einkennalaus. Þórólfur segir rannsóknum þó ekki endilega bera saman hvað þetta varðar.
„Það eru til rannsóknir sem segja það og svo eru til rannsóknir sem segja annað. Þannig að þetta er breytilegt. Þetta breytir engu í nálguninni, nema jú að við vitum að dreifingin er meiri en við vitum um og við verðum að sætta okkur við það. En við erum fyrst og fremst að reyna að minnka dreifinguna með því að taka þetta fólk sem er með einkenni og þá sem eru í snertingu við það. Það þýðir ekki að það séu ekki aðrir sem geti smitað, en ennþá teljum við það ólíklegra að einkennalaust fólk smiti en hinir.“
Þórólfur segir í raun ekkert meira hægt að gera hvað þetta varðar. „Hinn kosturinn væri að gera ekki neitt. Segja bara að við vitum ekkert um þetta og allir geti verið að smita. En þá höfum við ekki stjórn á neinu og fáum þennan faraldur alveg óheftan yfir okkur. Við minnkum líkurnar verulega með þessu en komum ekki í veg í fyrir það.“
Spurður hvort það væri ekki betra að loka landinu, líkt og nokkrar þjóðir hafa gert, til að mynda nágrannaþjóðir okkar, Danmörk og Noregur, segir Þórólfur það ekki rétta skrefið. „Við erum komin með veiruna inn í landið og hún kom með Íslendingum. Það hefur enginn útlenskur ferðamaður greinst hér með veiruna. Að loka núna myndi ekki breyta neinu, ekki nema við ætlum að loka Íslendingana úti sem eru að koma að utan. Veiran er komin hingað inn og við vitum að þótt við reyndum að loka alla úti myndi hún koma hérna inn fyrr en síðar þegar það yrði opnað aftur. Þannig að ég held að það sé ekki sniðug taktík.“
Sú aðgerð að loka landinu myndi því ekki hafa meiri áhrif en þær aðgerðir sem nú þegar hefur verið gripið til og er verið að beita. „Tölurnar sem við sjáum núna sýna að það sem við höfum verið að gera heftir útbreiðsluna töluvert mikið. Fólk sem er í sóttkví er að greinast veikt og það hefur ekki náð að smita marga út frá sér. Það sem við erum að gera skilar árangri að okkar mati. Að bæta ofan á það að loka öllu og valda miklum öðrum vandamálum sem tengjast því myndi ekki skila miklu í þessu tilliti, að mínu mati.“
En ef fáir smitast núna er þá ekki hætt við því að það komi upp faraldur síðar, ef veiran verður til staðar í heiminum eitthvað áfram?
„Jú, það gæti vel verið ef mjög fáir sýkjast og veiran er enn í gangi erlendis, þá gæti hún komið aftur. Hins vegar ef við náum að halda henni verulega niðri og hún deyr út í heiminum þá erum við í nokkuð góðum málum, en það veit maður aldrei alveg fyrirfram.“
Markmiðið með aðgerðum núna er, að sögn Þórólfs, að halda þeim faraldri sem nú er í gangi í góðum skefjum. „Þannig að við fáum ekki óheftan faraldur og mikið af veiku fólki inn á gjörgæslu spítalanna, það yrði mjög slæmt. Það er aðaltilgangurinn með þessu.“
Hverjar líkurnar eru á hugsanlegum faraldri síðar segir Þórólfur: „Það fer eftir því hvað það eru margir sem sýkjast og það ber að hafa í huga að langflestir sem sýkjast fá lítil einkenni og gera sér ekki oft grein fyrir því. Það er því þannig að það verða fleiri sem sýkjast en maður heldur. Ég held að við munum ná ágætis ónæmi í samfélaginu. Það getur tekið smá tíma og þess vegna erum við að grípa til þessara aðgerða.“
Þórólfur segir töluverðan lærdóm hafa verið dreginn nú þegar af þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til. „Lærdómurinn er sá að við höfum verið að gera rétt. Ég held að aðgerðirnar okkar hafi verið réttar og komið inn á réttum tíma. Við höfum ekki verið að grípa til einhverra örþrifaráða þegar allt hefur verið farið af stað eins og sumar þjóðir hafa gert. Ég held að við getum verið ánægð eins og staðan er núna. Auðvitað veit maður aldrei hvernig staðan verður, en við höfum þá önnur ráð uppi í erminni ef ástandið versnar eitthvað. Maður vill heldur ekki grípa til of mikilla aðgerða sem valda meiri skaða á samfélaginu. Það verður að fara þarna bil beggja. Að beita mjög áhrifaríkum aðgerðum á sem mildastan hátt þannig að aukaverkanirnar verði ekki of miklar,“ segir Þórólfur en faraldurinn hefur þróast á svipaðan hátt og hann bjóst við.