Misskilningur í gangi um hjarðónæmi

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Víða er misskilningur uppi í þjóðfélaginu um hugtakið hjarðónæmi. Þetta sagði Þórólfur Guðnason á blaðamannafundi almannavarna sem hófst klukkan 14.

Þórólfur sagði hugtakið koma úr bólusetningafræðum. Það segði til um hve stóran hluta af þjóðinni þyrfti að bólusetja til að veira gæti ekki þrifist og skapað faraldur.

Hægt væri að reikna hjarðónæmi fyrir kórónuveiruna út frá útbreiðslustuðli hennar, sem Þórólfur benti á að væri 3.

Ekki takmarkið að 60-70% þjóðarinnar sýkist

„Ef við hefðum bóluefni þá gætum við því sagt að við þyrftum að bólusetja 60-70% þjóðarinnar til að verjast veirunni,“ sagði hann.

„En það þýðir ekki að það sé takmark okkar að 60-70% þjóðarinnar muni sýkjast,“ bætti hann við og lagði áherslu á þennan punkt. Um þetta atriði væri ríkjandi misskilningur.

Ekki væri þá hægt að vita hversu margir myndu sýkjast af veirunni.

„Vonandi verða þeir sem fæstir,“ sagði Þórólfur og minnti að lokum á að langflestir sem smituðust af veirunni fengju væga sýkingu. Miklu máli skipti hins vegar að vernda viðkvæmara fólk í áhættuhópum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert