Staðfest tilfelli kórónuveiru hér á landi eru komin á þriðja hundrað en alls hafa 224 smit verið staðfest. 25 hafa því bæst við frá því í gærkvöldi. Þetta staðfestir Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, í samtali við mbl.is.
22 hafa greinst með veiruna eftir að hafa farið í skimum hjá Íslenskri erfðagreiningu og hafa því þrír bæst í hópinn síðan í gær.
Rakningateymi almannavarna vinnur nú að því að rekja smitin sem greinst hafa frá því í gær að sögn Víðis. Hann gat ekki sagt til um fjölda í sóttkví þegar eftir því var leitað en þeim hefur fjölgað töluvert síðan í gær en er fjöldinn þó líklega ekki kominn yfir þrjú þúsund.