„Við ræddum um mikilvægi þess að viðhalda áfram góðum samskiptum þegar þessum heimsfaraldri lyki. Ég lagði líka áherslu á mikilvægi þess að viðhalda flugi milli landa út af sérstakri stöðu landsins,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra í samtali við mbl.is um símafund sinn með Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, fyrr í dag.
Ráðherrarnir ræddu um áhrif tímabundins banns Bandaríkjastjórnar við ferðum ferðamanna af Schengen-svæðinu, sem nær einnig til íslenskra ríkisborgara. Íslensk stjórnvöld hafa þegar mótmælt aðgerðum bandarískra stjórnvalda. Guðlaugur ítrekaði mikilvægi flugs milli Norður-Ameríku og Íslands við Pompeo.
Guðlaugur segir að Pompeo hafi hrósað íslenskum heilbrigðisyfirvöldum fyrir viðbrögð við að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar hér á landi.
Þeir urðu einnig ásáttir um að undirbúa samráð á sérfræðingastigi um þessi mál, hugsanlega í tengslum við efnahagssamráð ríkjanna í stærra samhengi. Guðlaugur segir brýnt að núna sé unnið að því að takmarka tjónið sem og að undirbúa að nýta sem best sóknafæri sem skapast þegar faraldrinum lýkur.
„Viðbrögðin voru góð og samskiptin góð. Það var mjög gott að fá strax viðtal við hann,“ segir hann spurður um viðbrögð Pompeos. Eftir að stjórnvöld í Bandaríkjunum settu á ferðabann frá Evrópu í síðustu viku óskaði Guðlaugur eftir símafundi með Pompeo. Á föstudaginn bauð Pompeo honum á fund í Washington á fimmtudaginn næsta. Síðasta laugardag var ljóst að af fundinum yrði ekki því ráðamenn í Bandaríkjunum aflýstu öllum fundum sínum vegna víðtæks ferðabanns. Guðlaugur óskaði því eftir símafundi og sá fundur fór fram í hádeginu í dag, eins og fyrr segir.
„Þó að hlutirnir gerist mjög hratt verðum við að horfast í augu við það að þetta leysist ekki alveg á næstunni. Þetta snýst í rauninni um að þegar um hægist, hvenær sem það verður, getum við nýtt tækifærin. Bæði með þessum fundum og öðrum erum við að vinna að því að takmarka tjónið,“ útskýrir Guðlaugur.
„Nei, við sjáum það ekki fyrir okkur að það verði hætt að fljúga til Evrópu,“ segir hann spurður hvort hætt verði að fljúga til Evrópu í ljósi tilmæla framkvæmdastjórnar ESB um að loka ytri landamærum Schengen.
Hann ítrekar að meiri áhyggjur séu af flugi til Norður-Ameríku, sem er þrátt fyrir allt enn í gangi. Samtal íslenskra stjórnvalda við Evrópusambandið stendur yfir, segir Guðlaugur, og bætir við að hagsmunir Íslands felist í því að landið sé opið í báðar áttir. Staðan breytist ört og því leggja stjórnvöld áherslu á að bregðast hratt og örugglega við.
Guðlaugur fundaði með utanríkisráðherrum Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar í gær þar sem lögð var áhersla á samstöðu og samvinnu vegna kórónufaraldursins. „Við ákváðum meðal annars að norrænir ríkisborgarar gætu nýtt sendiráðin burtséð frá hvaða landi þeir eru,“ segir Guðlaugur um meiri samvinnu Norðurlandanna núna. Hann segir þessa samvinnu landanna mikilvæga.