Hallur Már -
Bjarni Benediktsson, fjármála og efnahagsráðherra, segir óskir atvinnulífsins um viðbrögð við efnhagsþrengingum vegna faraldurs kórónuveirunnar snúast um að skapa skilyrði til að veita fyrirtækjum slaka. „Fyrst og fremst að það komi súrefni inn í fjármálakerfið vegna þess að kerfið er að sinna þeim sem eru að missa tekjur,“ sagði Bjarni við fréttamenn að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun.
Umhverfi bankanna verði að vera þannig að ekki verði teknar afdrifaríkar ákvarðanir á meðan það versta gengur yfir. „Að það sé gengið að veðum vegna þess að menn séu í vanskilum og svo framvegis. Nei, við þurfum að skapa alveg nýtt svigrúm fyrir bankana til að bregðast við þessari stöðu og skapa réttu hvatana. Þannig held ég að við björgum flestum störfum og höldum starfsemi gangandi,“ sagði Bjarni. Mikilvægt sé að gera meira en minna og takast á við afleiðingarnar þegar faraldurinn er yfirstaðinn.